Látnir afklæðast og bíða í röðum

Mynd sem lögreglan birti af föngunum nöktum í fangelsisgarðinum á …
Mynd sem lögreglan birti af föngunum nöktum í fangelsisgarðinum á meðan leitað var í klefum þeirra. AFP

Myndir af hundruðum nakinna fanga í fangelsi á Filippseyjum hafa vakið hörð viðbrögð. Fangarnir eru látnir sitja á gólfum naktir á meðan leitað er að smyglvarningi. Myndirnar þykja benda til að mannréttindabrot séu framin í fangelsum landsins undir stjórn forsetans Rodrigo Duterte. 

Fangarnir í Cebu-fangelsinu voru vaktir fyrir dögun í gær, smalað saman út í fangelsisgarðinn og neyddir til að afklæðast á meðan fíkniefnalögreglumenn og hermenn leituðu í klefum þeirra.

Þetta staðfestir fangelsisstjórinn Rafael Espina við AFP-fréttastofuna. 

Lögreglan birti svo myndir af föngunum þar sem þeir sátu naktir með krosslagða fætur í snyrtilegum röðum á steinsteypunni í fangelsisgarðinum. 

Lögreglan segir að við leitina í klefunum hafi fundist „nokkrir pakkar“ af metamfetamíni og marijúana-laufum. Þá hafi einnig fundist nokkrir hnífar og farsímar. 

Fangelsi á Filppseyjum eru yfirfull.
Fangelsi á Filppseyjum eru yfirfull. AFP

Mannúðarsamtök segja myndirnar valda miklum áhyggjum um að margvísleg mannréttindabrot séu framin í fangelsum landsins nú þegar stríð forsetans gegn fíkniefnum stendur sem hæst. Hann hefur látið fangelsa, svo dæmi sé tekið, hundruð ungmenna fyrir meint minniháttar brot.

„Þetta atvik sýnir svo ekki verður um villst að fangarnir þurfa að þola ómannúðlega og niðurlægjandi meðferð,“ segir í tilkynningu frá Amnesty International.

Amnesty bendir á að samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum eigi ekki pynta eða láta fanga sæta illri meðferð.

Mannúðarsamtökin Human Rights Watch taka í sama streng og bæta við að myndatakan ein og sér sé niðurlægjandi. 

Talsmaður lögreglunnar segir að héraðsstjórinn og fangaverðir hafi fyrirskipað föngunum að afklæðast. 

„Við veittum aðeins tæknilega aðstoð,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Héraðsstjórinn segir það hefðbundin vinnubrögð að láta fangana afklæðast á meðan leitað er smyglvarnings innan fangelsisveggjanna. Hann segir ennfremur að fangelsisstjórinn hafi verið rekinn þar sem ýmis ólöglegur varningur hafi fundist í fangelsinu.

Cebu-fangelsið var frægt árið 2007 er myndband af föngunum að dansa saman við lag Michaels Jackson, Thriller, var birt á YouTube. 

Duterte hefur ekki aðeins fangelsað þúsundir síðustu mánuði heldur hefur hann einnig látið taka mörg þúsund manns af lífi. Amnesty segir að morðin gætu verið glæpir gegn mannkyninu.

Durterte hefur sagt mannréttindasamtökum að draga sig í hlé. Verkefni hans, stríðið gegn fíkniefnum, sé mun mikilvægara samfélagsmál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert