Glíma um úrslitasæti í Frakklandi

Marine Le Pen var spurð spjörunum úr í viðtali í ...
Marine Le Pen var spurð spjörunum úr í viðtali í gær. AFP

Frambjóðendurnir í frönsku forsetakosningunum voru spurðir spjörunum úr á ríkissjónvarpsrásinni France2 í gærkvöldi. Var það síðasta tækifæri þeirra til að höfða til kjósenda og heilla þá til fylgis við sig en fjórðungur þeirra segist enn óákveðinn. Fyrri umferð kosninganna fer fram á sunnudag og þeir tveir sem þar verða hlutskarpastir leiða saman hesta sína að nýju sunnudaginn 7. maí.

Miðjumaðurinn Emmanuel Macron var efstur í skoðanakönnunum sem birtar voru í gær. Hafði hann eins til tveggja prósenta forskot á Marin Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar. Fylgi beggja hefur verið að dala síðustu vikur en á sama tíma hafa Francois Fillon, frambjóðandi mið- og hægrimanna, og harðlínuvinstrimaðurinn Jean-Luc Melenchon verið að sækja í sig veðrið.

Útilokað að segja til um úrslit

Nú þremur dögum fyrir kjördag segja stjórnmálaskýrendur að vegna skekkjumarka í könnunum og atkvæðaflökts sé útilokað að segja til um hverjir tveir þessara fjögurra frambjóðenda verði í tveimur efstu sætunum og fari áfram. Hefur þessi staða aldrei komið upp í forsetakosningum í Frakklandi.

Le Pen hefur brugðist við fylgisfallinu með því að herða mjög á stefnu sinni í öryggismálum og málefnum innflytjenda. Þykir hún hafa farið yfir strikið í vikunni með fullyrðingum þess efnis að engin hryðjuverk hefðu verið framin í Frakklandi væri hún við völd. Í byrjun apríl mældist fylgi hennar 25% en hefur minnkað í 22,5%. Macron hefur dalað úr 25% í 23% á sama tíma, samkvæmt könnun Cevipof fyrir blaðið Le Monde en í henni svöruðu rúmlega 11 þúsund manns.

Jean-Luc Melenchon.
Jean-Luc Melenchon. AFP

Eldibrandurinn Melenchon hefur verið á hraðri uppleið og mælist með 19% fylgi, skammt á eftir Fillon, sem er með 19,5%. Hann hefur náð að endurheimta töluvert af því fylgi sem hrundi af honum vegna hneykslismála. Fjöldi fyrirtækja sinnir fylgismælingum í Frakklandi og eru þær sjaldnast samhljóða. Þannig var Fillon efstur með 24,3% í könnun Brand Analytics í vikunni. Macron var með 23,2%, Le Pen með 20,3% og Melenchon 17,1%.

Á þessu stigi kveðst um fjórðungur kjósenda ekki enn hafa gert upp hug sinn og því var sjónvarpsútsendingin í gærkvöldi talin þýðingarmikil. Annað sem einkenna mun kosningarnar á sunnudag er mikil heimaseta. Verður hún ekki undir 28% samkvæmt könnunum.

Möguleikinn á að Le Pen, sem hefur haft ESB og evruna á hornum sér, og Melenchon komist í seinni umferðina hefur valdið taugaveiklun meðal fjárfesta og bankastofnana.

Emmanuel Macron.
Emmanuel Macron. AFP

Le Pen kveðst munu sem forseti efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Frakka í ESB eftir að hafa áður samið við framkvæmdastjórnina í Brussel um að hún skili helstu völdum sínum aftur til aðildarríkjanna. „Ég vil að Frakkar fái aftur lyklana að eigin húsi,“ sagði hún í gær. Hún vill og að Frakkar taki aftur upp frankann og segi skilið við evruna. „Yrði annaðhvort þeirra næsti forseti yrðu svör markaðarins afar hörð,“ segja greinendur hjá fyrirtækinu Capital Economics. Undir þetta tók Christine Lagarde, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Hætta væri á pólitísku og efnahagslegu umróti ef Le Pen næði kjöri, sagði hún.

Athygli hefur vakið að stærstur hluti 18 til 24 ára kjósenda styður Þjóðfylkingu Le Pen, eða 39%. Meðal þess sem ýtir undir þetta er að atvinnuleysi í þessum aldurshópi mælist 25% og hann því móttækilegur fyrir áróðri um að kerfið gagnist þeim ekki. Þá hefur Le Pen haldið því fram að innflytjendur og ESB hafi rænt ungt fólk atvinnunni.

Francois Fillon.
Francois Fillon. AFP

Fillon, forsætisráðherra í stjórnartíð Nicolas Sarkozy forseta, hefur kynnt sig sem eina manninn með næga reynslu til að leiða landið á óvissutímum í kjölfar ákvörðunar Breta að hverfa úr ESB og kosningar Donalds Trumps sem forseta Bandaríkjanna. Fillon hefur og talað hart gegn hryðjuverkum og segir handtöku tveggja manna sl. þriðjudag, sem voru langt komnir með að fremja hermdarverk, kraftbirtingarmynd þeirrar hættu sem að Frakklandi steðjar. Sakaði hann Macron um linkind gagnvart róttækni íslamskra íbúa Frakklands. Fillon staðfesti í gær að lögreglan hefði tjáð honum að hann hefði verið „skotmark“ jíhadista.

Sá sem kjörinn verður Frakklandsforseti 7. maí fær upp í fangið þjóð sem er óánægð með hlutskipti sitt, yfir 10% atvinnuleysi, lítinn sem engan hagvöxt, gríðarlegan halla á fjárlögum og ríkisskuldir sem aldrei hafa verið meiri. Þá hefur ríkið þurft að taka lán til að borga opinberum starfsmönnum laun. Spenna ríkir í landinu á forsendum trúarbragða og litarháttar og hafa illvirki jíhadista orðið til að auka á hana.

mbl.is