Hóta United Airlines með lagasetningu

Oscar Munoz, forstjóri United Airlines, sat fyrir svörum hjá samgöngunefnd …
Oscar Munoz, forstjóri United Airlines, sat fyrir svörum hjá samgöngunefnd þingsins í dag. AFP

Samgöngunefnd Bandaríkjaþings hótaði í dag forsvarsmönnum bandaríska flugfélagsins United Airlines og öðrum flugfélögum með löggjöf, sem bæta ætti þjónustu við farþega. United Airlines komst í fréttirnar í síðasta mánuði fyrir að hafa vísað farþega úr einni véla sinna með valdi til að rýma sæti fyrir starfsfólk flugfélagins.

Forsvarsmenn United Airlines sátu fyrir svörum hjá samgöngunefnd fulltrúadeildar þingsins. Nefndin skoðar nú leiðir til að bregðast við svekkelsi farþega varðandi yfirbókanir og önnur flugtengd vandamál.

Reuters-fréttastofan segir forsvarsmenn flugfélaganna hafa andað léttar þegar þingnefndin kynnti engar áætlanir um aukið eftirlit með flugrekstri á þessum fjögurra tíma langa fundi.

„Mistök af ævintýralegri stærðargráðu“

Myndband farþega af því þegar United Airlines lætur draga David Dao, karlmann á sjötugsaldri, út úr flugvél á Chicago-flugvelli eftir að hann neitaði að gefa upp sæti sitt, hlaut mikla dreifingu á samfélagsmiðlum.

Oscar Munoz, forstjóri United Airlines, baðst á fundinum í dag ítrekað afsökunar á atvikinu, en United samdi við Dao í síðustu viku um greiðslu skaðabóta.

„Á þeirri stundu brugðumst við viðskiptavinum okkar og brugðumst sem fyrirtæki og sem forstjóri ber ég ábyrgðina,“ sagði Munoz.  Hann sagði atvikið vera „mistök af ævintýralegri stærðargráðu“.

Margir þingmenn fljúga vikulega til Washington og nýttu þeir fundinn til að segja frá eigin reynslu af þeim pirringi sem farþegar fyndu fyrir vegna flókins bókunarkerfis, ruglingslegra gjalda, langs biðtíma og óútskýrðra tafa.

„Við vitum öll að þetta er hræðileg reynsla,“ sagði Michael Capuano, einn þingmanna demókrata í nefndinni. „Sumir rukka fyrir farangur, aðrir fyrir súrefni og hvað annað?“

Bill Shuster, formaður nefndarinnar, sagði að þingið muni bregðast við taki flugfélögin sig ekki á. „Við munum bregðast við og þá verður eitt yfir alla að ganga. Nýtið þetta tækifæri af því að ef þið gerið það ekki þá komum við og ykkur mun ekki líka það.“

mbl.is