Bjóða farþegum 10.000 dollara fyrir sætið

United Airlines ætlar nú að fara að greiða farþegum fyrir …
United Airlines ætlar nú að fara að greiða farþegum fyrir að láta sæti sitt í yfirbókuðum vélum af hendi. AFP

Bandaríska flugfélagið United Airlines greindi í dag frá því að farþegum yrði nú boðin greiðsla sem nemur allt að 10.000 dollurum fyrir að láta af hendi sæti sitt í yfirbókuðum flugvélum.

United Airlines hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarið fyrir að fjarlægja farþega með valdi til að tryggja starfsmönnum sínum sæti í einni vélanna. Myndband sem aðrir farþegar í vélinni tóku upp af því þegar farþeginn David Dao var borinn á brott úr vélinni fékk mikla dreifingu á samfélagsmiðlum með tilheyrandi gagnrýni í garð flugfélagsins. Segir Reuters-fréttastofan United Airlines vonast með greiðslunum til að bæta skaddað orðspor sitt.

Áður hafði Delta-flugfélagið, einn helsti keppinautur United, tilkynnt að það hyggist greiða farþegum bætur sem nemi allt að 9.950 dollurum fyrir að gefa upp sæti sitt í yfirbókuðum vélum.

Í tilkynningu United kom einnig fram að flugfélagið ætlaði að grípa til aðgerða til að draga úr yfirbókunum og til að auka ánægju viðskiptavina sinna.

„Markmið okkar er að ná að fækka tilvikum þar sem farþega er neitað um sæti og ná þeim jafnnálægt núllinu og hægt er og að verða flugfélag sem leggur aukna áherslu á ánægju viðskiptavina,“ sagði í yfirlýsingu frá United.

Að sögn Reuters yfirbókar United Airlines að jafnaði í vélar sínar um 3% til að bæta upp fyrir þá farþega sem ekki mæta í flug.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK