Krabbar í kóktöppum ekki krúttlegir

Talið er að um 17 tonn af plastúrgangi séu á …
Talið er að um 17 tonn af plastúrgangi séu á eyjunni. Ljósmynd/University of Tasmania

Henderson-eyja í Suður-Kyrrahafinu virðist vera orðin ein stærsta ruslakista í heimi fyrir plastúrgang. Plastið ógnar lífríki eyjunnar, en hún er á heimsminjaskrá UNESCO vegna kóralrifja þar í kring og vistkerfis sem á sér fáa líka.

Eyjan, sem er óbyggð, er hluti af Pitcairn-eyjaklasanum sem heyrir undir breska lögsögu, en vegna legu hennar safnast þar meira rusl en á eyjarnar í kring. Sameiginleg rannsókn ástralskra og breskra vísindamanna hefur leitt í ljós að fjöldi plasthluta á hverjum fermetra sé 671 og að samtals séu 17 tonn af plastúrangi á allri eyjunni.

„Margir þeirra hluta sem skola á land á Henderson-eyju eru hlutir sem fólk telur vera einnota og óhætt að fleygja,“ segir Jennifer Lavers, prófessor við Háskólann í Tasmaníu, sem tók þátt í rannsókninni en plastið er mjög lengi að brotna niður í náttúrunni.

„Krabbar eru farnir að gera sér heimili í töppum af plastflöskum, plastkrukkum og öðrum ílátum. Í fyrstu virðist þetta mjög krúttlegt, en það er ekki raunin. Þetta plast er gamalt, það er oddhvasst og eitrað.“

Þrátt fyrir að ástandið sé sérstaklega slæmt á Henderson-eyju hefur plastúrgangur áhrif á allar eyjar í hafinu og lífverur sem þar lifa, segir Lavers. „Það er í raun engin lifandi vera eða land sem sleppur við áhrifin af plastúrgangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert