Hvetur ríki heims til að vinna með Trump

Ummælin lét Putín falla á efnahagsráðstefnu í St. Pétursborg í …
Ummælin lét Putín falla á efnahagsráðstefnu í St. Pétursborg í dag. AFP

Vladimir Pútín Rússlandsforseti hvetur ríki heims til að vinna með Donald Trump að loftslagsmálum og segist ekki „dæma“ Bandaríkjaforseta fyrir að segja Bandaríkin frá Parísarsamkomulaginu.

„Maður á ekki að vera með hávaða útaf þessu heldur skapa skilyrði fyrir samstarf,“ sagði Pútín á efnahagsráðstefnu í St. Pétursborg í dag. Hann benti á að Trump vildi freista þess að endursemja um aðkomu Bandaríkjanna.

„Ef jafn stór mengunarvaldur og Bandaríkin hyggjast ekki vera í samstarfinu af fullum hug þá verður ekki hægt að ná fram neinu samkomulagi á þessu sviði,“ sagði Pútín.

Hann sagði það sína skoðun að Bandaríkin hefðu getað verið áfram innan samkomulagsins þar sem um rammasamkomulag hefði verið að ræða og það hefði verið mögulegt að breyta skuldbindingum Bandaríkjanna innan þess.

„En það sem hefur verið sagt, hefur verið sagt. Og við þurfum að huga að því hvað við gerum núna,“ sagði forsetinn.

Aðrir þjóðarleiðtogar hafa brugðist reiðir við ákvörðun Trump, m.a. Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti. Þau segja ákvörðunina misráðna og heitið því að viðhalda Parísarsamkomulaginu, sem þau segja skipta sköpum fyrir framtíð jarðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert