Hernám Palestínu í 50 ár

Ísraelar hafa byggt umdeildan vegg meðfram Vesturbakkanum.
Ísraelar hafa byggt umdeildan vegg meðfram Vesturbakkanum. AFP

Palestína hefur nú verið undir hernámi Ísraela í 50 ár. Í kjölfar Sex daga stríðsins í júní árið 1967 hertók Ísrael allt land Palestínumanna, Vesturbakkann og Gasaströndina. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í Mið-Austurlandafræði, segir í samtali við mbl.is árið 1967 hafa verið heilmikil tímamót.

Kortið sýnir svæðin sem Ísraelar hernumdu í kjölfar Sex daga ...
Kortið sýnir svæðin sem Ísraelar hernumdu í kjölfar Sex daga stríðsins. Kort/Wikipedia

Eins og nafnið gefur til kynna stóð stríðið yfir í sex daga og lauk með algjörum ósigri araba gagnvart Ísraelsher. Auk landsvæðis Palestínumanna hernámu Ísraelar eining Gólanhæðirnar, sem tilheyra Sýrlandi, og Sínaískagann í Egyptalandi. Sínaískaganum var skilað árið 1975 eftir friðarviðræður á milli Egypta og Ísraela.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti einhljóða árið 1967 tilskipun númer 242 sem laut að því að stuðla að friði í Mið-Austurlöndum. Tilskipunin segir meðal annars að Ísraelar skuli hörfa frá hernumdu svæðunum.

Á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem má finna svokallaðar landnemabyggðir Ísraela, en þær eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum. Landnemabyggðirnar hafa verið eitt af aðalágreiningsefnum ríkjanna.

„Land fyrir frið“

Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá hernámi Palestínu leitaði blaðamaður mbl til helsta sérfræðings Íslands um málefni Mið-Austurlanda. Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í Mið-Austurlandafræði við William College í Bandaríkjunum, segir atburði þessa árs hafa skipt sköpum í deilunni milli Ísraela og Palestínumanna og fyrir stjórnmál og efnahag landanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

„Fram að 1967 var spurningin um tilvist Ísraels, hvort Ísraelar ættu að vera til og með hvaða hætti,“ segir Magnús. En eftir Sex daga stríðið hafi deilan tekið á sig mynd formúlu sem kallast „land fyrir frið“ (e. Land for peace). „Eftir 1967 hefur kvöðin verið á arabísku löndin að setjast að samningaborðinu með Ísraelum og semja um frið, til þess að ná aftur þeim landsvæðum sem þau misstu,“ útskýrir Magnús.

Magnús segir þessa formúlu alls ekki auðvelda, þótt hún kunni að virðast það. „Eitt einkenni af brjálæði er að prófa sama hlutinn aftur og aftur og aftur og ætlast til þess að útkoman verði öðruvísi, stundum virðist það þannig í þessum deilum,“ segir Magnús.

Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í Mið-Austurlandafræði við Williams College.
Magnús Þorkell Bernharðsson prófessor í Mið-Austurlandafræði við Williams College. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Hernumdu svæðin helstu vatnslindir

„Síðan er það kannski algjör tilviljun að þessi landsvæði eru akkúrat helstu vatnslindir á þessum slóðum, með því að ná yfirráðum á þessum svæðum ná Ísraelar í raun og veru yfirráðum yfir helstu vatnslindum í leiðinni,“ segir Magnús og bendir á að það eitt hafi verið mjög mikilvægur þáttur.

Magnús segir Ísraela nota mun meira vatn en aðrar þjóðir á þessu svæði, enda séu oft bein tengsl á milli þess hversu iðnvætt ríki er og hversu mikið vatn það notar. „Þrátt fyrir að þeir eigi ekki þetta vatn nýta þeir sér það,“ segir Magnús. En vatn er af mjög skornum skammti á svæðinu.

Að auki segir Magnús að eftir hernámið á Vesturbakkanum og Gasaströndinni hafi myndast ákveðin efnahagsleg tengsl á milli Ísraels og Palestínu. „Margir Palestínumenn, og palestínska hagkerfið að einhverju leyti, urðu mjög háðir ísraelska hagkerfinu sem hefur haft ákveðin áhrif á samfélag Palestínumanna,“ segir Magnús.

Ísraelar telja svæðin nauðsynleg til varnar

Magnús segir marga Ísraela halda því fram að þau landsvæði sem þeir hernámu í kjölfar Sex daga stríðsins séu þeim nauðsynleg til þess að halda uppi vörnum. „Það má deila um það hversu nauðsynlegt það er fyrir Ísraelsríki að hafa þessi landsvæði sem einhvers konar varnarvirki og koma þannig í veg fyrir árásir frá arabalöndunum,“ segir Magnús. En aðrir halda því fram að hernám svæðanna veiki varnir Ísraela og sé frekar átylliástæða til þess að ráðast þarna inn, segir Magnús. 

Að lokum segir Magnús árið 1967 einnig hafa breytt hlutverki erlendra aðila í deilunni. Þá hafi erlend ríki farið að spila hlutverk sáttasemjara. „Staða Bandaríkjanna breyttist algjörlega í kjölfarið, fram að þessu höfðu það verið Bretar og Frakkar sem voru kannski uppistaðan í því að styðja Ísrael með ráðum og dáð og vopnum en eftir 1967 voru það Bandaríkjamenn,“ segir Magnús að lokum.

mbl.is
Volkswagen, Vw Transporter 2017 4x4
Dísel 4x4 sjöþrepa sjálfsk, Webasto hitari, klæddur að innan afturí , Verð 4890,...
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...
INTENSIVE ICELANDIC,ENGLISH & NORWEGIAN f. foreigners - ÍSLENSKA f. útlendinga - ENSKA f. fullorðna - NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA: START/BYRJA: 2018: 5/3, 2/4, 30/4, 28/5, 25/6; 23/7, 3/...
 
Framhald
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...
Aflamark
Tilkynningar
??????? ??????????????? ? ??? ?? ????...
Aðalfundur
Fundir - mannfagnaðir
Félag sjálfstæðismanna í Skóga- o...
Fulltrúaráðsfundur
Fundir - mannfagnaðir
Vörður - fulltrúaráð sjálfstæðisf...