Mæta banni með meiri vopnaframleiðslu

Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu með hópi norður-kóreskra kennara. Norður-Kórea hyggst …
Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu með hópi norður-kóreskra kennara. Norður-Kórea hyggst bregðast við nýjustu viðskiptaþvingununum með því að auka enn á vígbúnað sinn. AFP

Ráðamenn í Norður-Kóreu segjast ætla að svara hertum viðskiptaþvingunum í sinn garð með því að setja enn meiri kraft í vopnaframleiðslu sína. Segjast þeir með því vera að bregðast við hættunni á innrás frá Bandaríkjunum að því er Reuters fréttastofan greinir frá.

Norður-Kórea sprengdi vetnissprengju neðanjarðar fyrr í þessum mánuði og hefur sú aðgerð verið gagnrýnd harðlega af alþjóðasamfélaginu.

Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna samþykktu einróma á fundi sínum á mánudag hertar viðskiptaþvinganir í garð Norður-Kóreu. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði þær þó bara lítið skref á þeirri leið að ná böndum yfir vopnakapphlaup landsins.

Utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu sagði ályktunina vera brot á lögmætum rétti ríkisins til að verja eigin landamæri og að þeim væri ætlað að „kæfa fullkomlega ríkið og íbúa þess með allsherjar viðskiptahindrunum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert