Stórbruni í Stokkhólmi

Frá eldsvoðanum í Stokkhólmi.
Frá eldsvoðanum í Stokkhólmi. Ljósmynd Kristján Sigurjónsson

Sex hefur verið bjargað út úr brennandi húsi í miðborg Stokkhólms. Tveir voru fluttir á sjúkrahús með reykeitrun. Óttast er að eldurinn geti breiðst út í nærliggjandi hús, samkvæmt frétt Dagens Nyheter.

Húsið er á gatnamótum Jakobsbergsgatan/Biblioteksgatan við Stureplan og segir blaðamaður DN sem fylgist með á vettvangi að eldar logi á nokkrum hæðum hússins en í húsinu eru níu íbúðir og eitt fyrirtæki.

Lögreglan hefur girt af svæðið í kringum bygginguna og hefur beðið Stokkhólmsbúa að forðast það að fara nálægt Stureplan-Jakobsbergsgatan-svæðinu á meðan slökkvistarf stendur yfir.

Brunaviðvörunarkerfi hússins fór af stað um kl. fimm í morgun að staðartíma, um 4 að íslenskum tíma, og er talið að það muni taka töluverðan tíma að slökkva eldinn. 60-70 slökkviliðsmenn taka þátt í slökkvistarfinu en þeir koma frá átta slökkviliðsstöðvum í Stokkhólmi. Að sögn Christer Wahlström, varðstjóra í slökkviliði Stokkhólms, er óttast að eldurinn breiðist út í nærliggjandi byggingar og er verið að reyna að verja þær að innan sem utan. 

 2017-11-07 05:06, Brand, Stockholm Norrmalm. Brand i byggnad. https://t.co/a6NzxzYKgK

 Samkvæmt frétt Aftonbladet er hætta á gassprengingu þar sem gaskútar eru inni í brennandi húsinu. Dagens Industri greinir frá því að til hafi staðið að HM myndi opna nýja verslun í húsinu næsta vor undir nýju merki HM; Arket.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert