Reknir fyrir að úrskurða barn látið

AFP

Stjórn sjúkrahúss í höfuðborg Indlands, Nýju-Delí, hefur rekið tvo lækna úr starfi fyrir að úrskurða ranglega nýfætt barn látið.

Læknarnir störfuðu á einkasjúkrahúsinu Max og höfðu úrskurðað barnið látið eftir að tvíburi þess hafði fæðst andvana 30. nóvember. Þegar foreldrar barnsins voru að fara með það til útfarar urðu þau þess vör að barnið þeirra var á lífi.

Mikil reiði greip um sig í landinu og skapaðist hörð umræða um gæði einkarekinnar heilbrigðisþjónustu í Indlandi en slík þjónusta kostar mjög mikið. 

Í yfirlýsingu frá Max-sjúkrahúsinu segir að þegar hafi verið gripið til aðgerða eftir að innanhússrannsókn fór fram á málinu. Enn er unnið að rannsókn málsins en þrátt fyrir það hafi stjórn sjúkrahússins ákveðið að reka læknana tvo frá störfum. 

Í frétt BBC kemur fram að foreldrarnir hafi orðið vör við að barnið hreyfði sig í plastpokanum sem læknarnir höfðu sett barnið í eftir að hafa úrskurðað það látið. Að sögn afa barnsins þustu foreldrarnir með barnið á nálægt sjúkrahús þar sem þeim var tjáð að barnið væri á lífi. 

Í síðasta mánuði bárust fréttir af því að stúlka hefði látist úr beinbrunasótt á einkasjúkrahúsi í Indlandi og er talið að um handvömm lækna sé að ræða. Foreldrar hennar segja að þau hafi síðan verið látin greiða háar fjárhæðir fyrir meðferðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert