Neita að hafa útvegað vopnin

AFP

Yfirvöld í Íran neita að hafa útvegað uppreisnarmönnum í Jemen vopn sem notuð voru í árás á Sádi-Arabíu líkt og yfirvöld í Sádi-Arabíu og Bandaríkjunum halda fram.

Talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins segir að engin hernaðartengsl séu á milli ríkjanna en yfirvöld í Sádi-Arabíu greindu frá því í gær að þau hefðu náð að stöðva eldflaugaskot sem beindist að Riyadh. Samkvæmt þeim var flaugin framleidd af Írönum. 

„Ásökunum um að Íran útvegi ákveðnum hópum vopn er harðlega neitað,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins. Talsmaðurinn, Bahram Ghasemi, segir að Jemen sé í hafnbanni þannig að það sé ekki einu sinni mögulegt að senda þangað vopn. „Það er ekki einu sinni mögulegt að senda þangað hjálpargögn,“ segir hann og bætir við að vopnin sem um ræðir hljóti að vera leifar frá fyrri tíð.

Herflokkar undir stjórn Sádi-Araba hafa barist gegn uppreisnarmönnum úr hópi síja-múslíma í Jemen frá því í mars 2015 og hafa yfirvöld ítrekað sakað írönsk yfirvöld um að styðja við uppreisnarmennina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert