Tveir blaðamenn áfram í gæsluvarðhaldi í Mjanmar

Mótmælendur mættu fyrir utan dómshúsið og mótmæltu handtökunum.
Mótmælendur mættu fyrir utan dómshúsið og mótmæltu handtökunum. AFP

Tveir blaðamenn Reuters-fréttaveitunnar í Mjanmar (Búrma) hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald í hálfan mánuð. Gætu þeir átt yfir höfði sér allt að 14 ára fangelsisdóm.

Mennirnir tveir, Wa Lone og Kyaw Soe Oo, höfðu fjallað um ofsóknir stjórnarhers Mjanmar á rohingjum. Þeir voru handteknir eftir að hafa verið boðið að hitta lögregluna í Yangon, höfuðborg Mjanmar, í kvöldmat.

Ekki hefur enn verið gefin út ákæra á hendur mönnunum, en þeir eru til rannsóknar á grundvelli þess að hafa haft undir höndum leyniskjöl.

Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að stjórnarher landsins sé líklega sekur um þjóðarhreinsanir á rohingja-múslimum í landinu, en 655 þúsund þeirra hafa flúið landið síðan stjórnarherinn hóf ofsóknir sínar.

Yfirvöld í Mjanmar hafa neitað að tjá sig við AFP-fréttaveituna vegna málsins og ekki er vitað hvar mennirnir eru í haldi. Þegar áframhaldandi gæsluvarðhald var kveðið upp sagði Lone að þeim hefði ekki verið misþyrmt og Soe Oo varaði aðra blaðamenn við og sagði að þeir þyrftu að fara varlega.

Wa Lone mætir í dómshúsið.
Wa Lone mætir í dómshúsið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert