Neyddu veitingastaði til að kaupa ítalskar vörur

Þýska og ítalska lögreglan hafa handtekið 169 manns í lögregluaðgerð sem beinist gegn mafíustarfsemi. Hald var lagt á eignir að andvirði 50 milljónir evra, en lögregluaðgerðirnar beindust sérstaklega gegn 'Ndrangheta-glæpasamtökunum að sögn ítölsku lögreglunnar.

Eru glæpasamtökin m.a. sögð hafa neytt þýska veitingastaði til að kaupa vín, pítsadeig og sætabrauð sem búið var til á Suður-Ítalíu, að því er BBC hefur eftir lögreglu.

Meðal þeirra sem handteknir voru var héraðsstjóri Crotone-héraðsins í Calabria, Nicodemo Parrilla.  Þá beindi lögregla sjónum sínum einnig að félögum í Farao-Marincola-glæpagenginu, sem er eitt það öflugasta í Calabriu.

Höfuðstöðvar 'Ndrangheta-glæpasamtakanna eru á suðurhluta Ítalíu, en samtökin teygja anga sína víða um Evrópu og segir BBC þau m.a. hafa verið að undirbúa að færa út kvíarnar til Sviss.

Nicola Grattari, ítalski saksóknarinn sem hefur yfirumsjón með rannsókninni, segir handtökurnar vera mikilvægustu aðgerðir gegn samtökunum á sl. tuttugu árum.

Ítalskir lögreglumenn að störfum.
Ítalskir lögreglumenn að störfum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert