Myrti 80 konur og einn karl

Mikail Popkov.
Mikail Popkov. Murderpedia.com

Rússneskur fjöldamorðingi hefur játað á sig 59 morð og eina manndrápstilraun á átján ára tímabili til viðbótar við morð sem hann hafði áður játað að hafa framið. Maðurinn, Mikail Popkov, 53 ára gamall fyrrverandi lögreglumaður í Síberíu, kom fyrir rétt í gær.

Popkov afplánar þegar lífstíðardóm fyrir að hafa nauðgað og myrt 22 konur auk þess að hafa gert tilraun til að drepa tvær konur til viðbótar. Popkov, sem hefur gengið undir viðurnöfnunum varúlfurinn og brjálæðingurinn frá Angarsk, var dæmdur árið 2015 í lífstíðarfangelsi. Morðin sem hann játaði fyrir rétti í gær voru framin á tímabilinu 1992 til 2010. 

Popkov myrti fórnarlömb sín eftir að hafa boðið þeim far heim að kvöldlagi, stundum á lögreglubílnum þegar hann var ekki á vakt í heimaborginni Angarsk, skammt frá Irkutsk.

Ef hann verður dæmdur fyrir alls 81 morð verður hann sá Rússi sem hefur framið flest morð en meðal annarra þekktra rússneskra fjöldamorðingja má nefna Alexander Pichushkin, sem var dæmdur fyrir 48 morð, og Andrei Chikatilo, sem var dæmdur fyrir morð á 52. 

Réttarhöldin voru lokuð í gær til að koma í veg fyrir að fjölmiðlar birtu upplýsingar um kynferðislegt ofbeldi sem hann beitti fórnarlömb sín. Popkov hefur sjálfur lýst sér sem ræstitækni sem hafi haft það hlutverk að hreinsa borgina af vændiskonum.

Fórnarlömb hans voru konur á aldrinum 16-40 ára fyrir utan eitt en Popkov myrti einnig karlkyns vinnufélaga sinn í lögreglunni.

Í síðasta mánuði sagði Popkov í viðtali við Meduza að hann hefði myrt fórnarlömb sín með hamri eða exi og eftir fyrsta morðið hefði hann óttast að upp um hann kæmist. Svipað hefði komið upp í hugann síðar en þá hefði hann myrt konurnar með köldu blóði. 

Popkov segist hafa tekið konurnar upp í bílinn og ráðist á þær sem voru drukknar eða lifðu lífinu á þann hátt að honum hafi verið misboðið. 

Konur sem hegðuðu sér eins og það skipti engu hvert þau væru að fara og það sem væri mikilvægast fyrir þær væri að djamma. Að eigin sögn tengdi hann morðþörfina við grunsemdir sínar um að eiginkona hans væri honum ótrú. Popkov framdi morðin á meðan hann var starfandi sem lögreglumaður og eftir að hann lét af störfum. 

Popkov náðist ekki fyrr en árið 2012 þegar rannsóknarlögreglan tók málin aftur upp og gerði lífsýnarannsóknir þar sem sjónum var einkum beint að þeim sem óku bifreiðum sem voru með hjólbarða líkt og för sem fundust á vettvangi glæpanna. Popkov fór síðar með lögreglunni á vettvang morðanna og sýndi þeim hvar hann gróf líkin. 

Popkov er talinn glíma við persónuleikaraskanir en sakhæfur þrátt fyrir það. Að sögn saksóknara eru vændiskonur og eiturlyfjafíklar á meðal fórnarlamba hans en flestar kvennanna eru það ekki heldur fjölskyldumanneskjur. Hann segir að það hafi verið fjölmiðlar sem bjuggu til þá mýtu að Popkov hafi verið að hreinsa til í bænum sínum. Hann sé einfaldlega fjöldamorðingi. 

Réttarhöldunum verður fram haldið á mánudag.

Upplýsingar um fjöldamorðingjann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert