Prófessor í haldi grunaður um nauðganir

Tariq Ramadan.
Tariq Ramadan. AFP

Franska lögreglan yfirheyrði svissneska fræðimanninn Tariq Ramadan vegna ásakana um að hann hefði nauðgað tveimur konum en þær greindu opinberlega frá ofbeldinu í kjölfar frétta af kynferðislegri áreitni kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein.

Ramadan, sem er prófessor í íslömskum fræðum við háskólann í Oxford, var kallaður til yfirheyrslu á lögreglustöð í París og settur í varðhald, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar innan úr lögreglunni. Liggur hann undir grun um nauðganir og annað ofbeldi.

Prófessorinn hefur harðlega neitað ásökunum sem konurnar tvær, sem báðar eru múslimar, lögðu fram á síðasta ári. Þær segjast hafa leitað til Ramadan, en afi hans var stofnandi Bræðralags múslima í Egyptalandi, eftir ráðleggingum tengdum trúmálum. 

Önnur þeirra, Henda Ayari, rithöfundur og þekktur femínisti og aðgerðarsinni, segir að Ramadan hafi lagt til að þau hittust í París árið 2012 eftir að hún hafði samband við hann og vildi ræða ákvörðun sína um að hætta að ganga með höfuðslæðu.

Hún segir að Ramadan hafi nauðgað henni í hótelherbergi sínu í París. Í viðtali við Le Parisien sagði hún að hann hafi beitt hana svo mikilli hörku að hún hafi talið að dagar hennar væru taldir. 

Önnur kona, sem ekki hefur komið fram undir nafni, segir að hann hafi nauðgað henni í hótelherbergi í borginni Lyon árið 2009. 

Í nóvember tilkynnti háskólinn í Oxford að Ramadan, sem er 55 ára gamall, yrði sendur í leyfi ótímabundið en hann er prófessor í samtíma-íslömskum fræðum. Um sameiginlega ákvörðun væri að ræða.

Ramadan, sem oft kemur fram í sjónvarpsþáttum og pallborðsumræðum, hefur verið sakaður um að reyna að ýta undir íslam sem stjórnmálaafl. Ramadan er með um tvær milljónir fylgjenda á Facebook. Honum var meinað að koma til Bandaríkjanna í nokkur ár eftir hryðjuverkin 11. september 2001 sem kom í veg fyrir að hann gæti starfað sem fræðimaður þar.

Hann sagði þessa ákvörðun bandarískra yfirvalda fáránlega og hann hafi alltaf lýst yfir andstöðu við hryðjuverk. Sakaði hann yfirvöld um að reyna að koma í veg fyrir umræðu í landinu.

Ayari greinir frá nauðguninni í bók sem hún gaf út í fyrra en þar nafngreinir hún Ramadan ekki. En í október greindi hún frá nafni hans og sagðist hafa fengið hugrekki til þess að krafti #Me Too/#Balance Ton Porc. Hún lagði fram kæru á hendur Ramadan 20. október. 

Hin konan, sem er fötluð og snerist til íslam á fullorðinsárum, greindi frá nauðguninni í viðtali við Le Monde. Hún hafi hitt hann á hóteli í Lyon þar sem hann var á ráðstefnu. „Hann sparkaði í hækjurnar mínar og kastaði sér ofan á mig. Þú lést mig bíða og það mun kosta þig,“ hafði konan eftir Ramadan í viðtalinu.

Í frétt AFP kemur fram að Ramadan hafi neitað ásökunum kvennanna sem og ásökunum sem  birtar voru í svissneskum fjölmiðlum um að hann hefði brotið gegn unglingsstúlkum þar í landi fyrir áratugum. 

Lögmenn Ramadan, sem er kvæntur fjögurra barna faðir, saka Ayari um rógburð og að hún vilji gera lítið úr honum. Á þriðjudag tilkynnti hann um stofnun nýrrar hreyfingar í París sem nefnist Mótstaða og annar valkostur sem hafnar öllum þeim hefðbundnu kenningum og hugmyndafræði sem í gangi eru.

Umfjöllun Le Parisien

Henda Ayari.
Henda Ayari. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert