Þjálfari landsliðsins sæti lögreglurannsókn

John Geddert, fyrrverandi þjálfari bandaríska landsliðsins í fimleikum, með fimleikakonunni …
John Geddert, fyrrverandi þjálfari bandaríska landsliðsins í fimleikum, með fimleikakonunni Jordyn Wieber. Geddert er nú til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum. AFP

Þjálfari bandaríska landsliðsins í fimleikum er nú til rannsóknar hjá lögregluyfirvöldum í Eaton sýslu í Michigan vegna ásakana sem komu fram í hans garð við réttarhöldin yfir Larry Nassar, lækni fimleikaliðsins. Nassar hefur þegar verið dæmdur í þrefalt lífstíðarfangelsi vegna kynferðisbrota gegn keppendum liðsins og öðrum fimleikastúlkum.

John Geddert, sem þjálfaði bandaríska landsliðið sem fékk gullverðlaun á ólympíuleikunum í London 2012, á fimleikasal í Eaton sýslu og hafa lögregluyfirvöld þar nú hafið rannsókn á honum.

„Fólk hefur haft samband við okkur og rannsókn okkar er í fullum gangi,“ segir Jerri Nesbitt talsmaður lögreglunnar. Hún vildi þó ekki veita frekari upplýsingar um málið.

Geddert hefur verið undir smásjánni undanfarið vegna náinna tengsla sinna við Nassar. Geddert þjálfaði m.a. bandarísku fimleikastjörnuna Jordyn Wieber. Mörg fórnarlamba Nassars ásökuð Geddert í yfirlýsingum sínum um að hafa krafist þess að Nassar sinnti þeim.

Um 200 af fórnarlömbum Nassars og fjölskyldur þeirra gáfu vitnisburði gegn lækninum í málaferlunum gegn honum. Þá sögðu sum fórnarlambanna að þau hefðu sætt líkamlegu og munnlegu ofbeldi af hálfu Gedderts

Amy Preston, móðir fimleikastúlku sem Geddert þjálfaði, sagði dóttur sína hafa sætt tilfinningalegu ofbeldi af hálfu Gedderts og að Nassar hefði notfært sér það til að vinna traust hennar.

„John Geddert hagaði sér jafn grimmilega og þær segja og Larry var jafn ljúfur og þær segja. Þetta reyndist síðan vera baneitruð blanda,“ sagði Preston.

Bandaríska fimleikasambandið rak Geddert fyrir hálfum mánuði og nokkrum klukkustundum síðar tilkynnti hann að hann ætlaði að láta af öllum þjálfarastörfum.

Nassar lýsti sig sekan um 10 kynferðisbrot og að hafa átt barnaklám í fórum sínum. Hann fékk þrjá lífstíðardóma sem hljóða upp á 140 ára fangelsisdóm hið minnsta.

mbl.is