64 látnir í brunanum í Rússlandi

64 hið minnsta eru látnir eftir að eldur kom upp í verslunarmiðstöð í kolanámuborginni Kemerovo í Síberíu í gær. Eldsvoðinn er einn sá mannskæðasti sem orðið hefur í Rússlandi frá því að Sovétríkin liðu undir lok.

Reuters-fréttastofan segir ekki enn vitað hvort að búið sé að finna alla sem í byggingunni voru, en BBC greindi frá því í morgun að talið væri að 41 hinna látnu væru á barnsaldri og að 10 væri enn saknað. 11 manns eru á sjúkrahúsi eftir brunann, m.a. 11 ára drengur sem er í lífshættu.

Eldurinn fór um efri hæð Winter Cherry verslunarmiðstöðvarinnar, þar sem að kvikmyndahús og leikherbergi barna var staðsett. Mikill fjöldi fólks var í verslunarmiðstöðinni er eldurinn kom upp, en skólafrí eru nú í Rússlandi.

Lýsa eftir ættingjum á samfélagsmiðlum

Slökkvilið og starfsmenn neyðarþjónustu greindu frá því í gær að þeim hefði tekist að slökkva eldinn, en að glóð hefði logaði einhvers staðar og eldur því komið upp á ný. Voru slökkviliðsmenn í dag í vanda með að komast að efri hæðum byggingarinnar, þar sem að þak hússins hefur hrunið.

Rússneskar sjónvarpsstöðvar hafa í dag sýnt myndskeið þar sem þykkan, svartan reyk leggur upp frá byggingunni.

Margir hafa í dag auglýst eftir fréttum af ættingjum og vinum á Facebook og hafa borgaryfirvöld í Kemerovo nú sett um hjálparmiðstöð í skóla í nágrenni verslunarmiðstöðvarinnar þar sem reynt er að svara fyrirspurnum.

Anna Kuznetsova, umboðsmaður barna í Rússlandi, segir eldinn hafa komið upp vegna vanhæfni og varaði við því að margar sambærilegar verslunarmiðstöðvar væru í landinu.

„Í öðrum héruðum þurfa yfirmenn annarra verslanamiðstöðva að fara núna strax án tafa í eftirlit og og spyrja sig: „Höfum við gert allt sem við getum til að tryggja að þetta gerist ekki hér,“ sagði í yfirlýsingu frá Kuznetsova.

Fáir gluggar eru á verslunarmiðstöðinni, sem var opnuð 2013, en húsið hýsti áður kökuverksmiðju.

Neyðarútgangar læstir og fólk lokaðist inni

Rússneskir fjölmiðlar hafa í dag haft eftir vitnum að ekki hafi kviknað á brunaboðanum í verslunarmiðstöðinni og að margir hafi lokast inni af því að neyðarútgöngudyr voru læstar.

Upptökur úr eftirlitsmyndavélum inni í verslunarmiðstöðinni sýna m.a. hóp fólks í reykfylltum stigagangi reyna að brjóta sér leið út í gegnum brunaútgang sem er læstur.

Þá hefur Stöð 1 í Rússlandi greint frá því að fólk hafi hoppað út um glugga á efri hæði hússins til að flýja eldtungurnar.

Rannsókn er þegar hafinn á upptökum eldsins og er málið m.a. rannsakað sem glæpur.  Fjórir sæta nú varðhaldi vegna eldsins m.a. eigendur og leigusali verslunarrýmanna. Þá segir rannsóknarnefndin einnig standa til að yfirheyra eiganda hússins.

Rússneska Interfax-fréttastofan hefur eftir ónefndum heimildamanni að helsta kenning þeirra sem rannsaka eldsupptökin sé að skammhlaup hafi orðið í rafmagni.  Aðstoðarfylkisstjórinn Vladimir Chernov, sagði hins vegar í gær að eldurinn hefði kviknað þegar að barn kveikti eld með því að bera kveikjara að froðu á trampólíni á leiksvæðinu.

Mikin og þykkan reyk leggur upp frá verslunarmiðstöðinni.
Mikin og þykkan reyk leggur upp frá verslunarmiðstöðinni. AFP

Pútín sendi samúðarkveðjur

Vladimír Pútin Rússlandsforseti hefur rætt í síma við fylkisstjóra Kemerovo og við yfirmann almannavarna sem sendur var á vettvang.

Þá er heilbrigðisráðherra Rússlands, Veronika Skvortsova, einnig komin á slysstað og heimsótti hún þá slösuðu á sjúkrahús.

Í yfirlýsingu frá rússneskum stjórnvöldum segir að Pútín votti aðstandendum þeirra sem létust samúð sína.

Fólk bíður í röð eftir að gefa blóð þeim sem …
Fólk bíður í röð eftir að gefa blóð þeim sem slösuðust í eldsvoðanum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert