Vilja að Macron ræði Jemen við krónprinsinn

Mohammed bin Salman Al Saud, krónprins Sádi-Arabíu, færði Antonio Guterres, …
Mohammed bin Salman Al Saud, krónprins Sádi-Arabíu, færði Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, 380 milljónir Bandaríkjadala til neyðaraðstoðar í Jemen í síðustu viku. AFP

Tíu alþjóðleg mannréttindasamtök skora á Emmanuel Macron Frakklandsforseta að þrýsta á Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, að láta af loftárásum í Jemen.

Macron mun taka á móti krónprinsinum í þriggja daga heimsókn sem hefst á sunnudag. Mohammed bin Salman er 32 ára, sonur konungs Sádi-Arabíu, Salman. Flestir líta nú á krónprinsinn sem raunverulegan leiðtoga landsins. 

Sádi-Arabar hafa frá árinu 2015 leitt hernaðarbandalag sem stundar loftárásir í Jemen. Sameinuðu þjóðirnar telja nú að hvergi í heiminum sé eins mikil neyð og segja að 22,5 milljón Jemena líði nú skort. 

„Emmanuel Macron ætti að leggja aðaláherslu á Jemen í viðræðum sínum við Mohammed bin Salman,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu mannréttindasamtakanna, m.a. Amnesty International og Mannréttindavaktarinnar. Segja samtökin að hætta verði árásum sem beinast gegn almennum borgurum og fara verði að alþjóðalögum. Þá krefjast þau þess að höftum á innflutning hjálpargagna og nauðsynjavara til Jemen verði aflétt með öllu.

Mohammed bin Salman Al Saud brosti sínu blíðasta á fundi …
Mohammed bin Salman Al Saud brosti sínu blíðasta á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum í síðustu viku. AFP

Í nóvember herti hernaðarbandalag Sáda enn á hafnarbanni í Jemen og síðan þá hefur gengið mjög erfiðlega að koma aðstoð til sárþjáðrar þjóðarinnar.

Sádar segja að innflutningshömlum hafi verið aflétt en hjálparsamtök segja það ekki vera raunina. 

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna varaði í síðasta mánuði við því að ástandið í Jemen væri enn að versna og myndi hafa ófyrirséðar og grafalvarlegar afleiðingar fyrir borgarana. 

Hernaður Sáda í Jemen hófst í mars árið 2015 og hefur því nú staðið í þrjú ár. Markmiðið var að koma vopnuðum sveitum húta frá völdum á svæðum sem þær höfðu sölsað undir sig eftir að forsetinn var hrakinn frá landinu. 

Frakkar selja Sádum mikið magn vopna og hafa sum mannréttindasamtök sakað þá um að tryggja ekki að þeim vopnum sé beitt á saklaust fólk í Jemen. 

Amnesty International segja að margt af því sem Sádar hafa gert í hernaði sínum í Jemen séu stríðsglæpir og að slíkar aðgerðir hafi fellt yfir 500 almenna borgara.

„Við reynum hvað við getum að leysa vandamál Mið-Austurlanda með pólitískum leiðum en ef hlutirnir fara úr böndunum þá reynum við eftir fremsta megni að komast hjá alvarlegum afleiðingum,“ sagði krónprins Sádi-Arabíu í heimsókn sinni í höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York í síðustu viku. „Við munum hér eftir sem hingað til fara að alþjóðalögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert