„Hættið að eyðileggja Sýrland“

Mótmælendur brenndu bandaríska fánann.
Mótmælendur brenndu bandaríska fánann. AFP

Þúsundir Íraka mótmæltu loftárásum Bandaríkja, Bretlands og Frakka á Sýrland í nokkrum borgum Íraks í dag. Síja klerkurinn Moqtada Sadr hvatti fólk til að mótmæla.

„Hættið að eyðileggja Sýrland eins og þið eyðilögðuð okkar land,“ hrópuðu mótmælendur í höfuðborginni, Bagdad, og minntust innrásar Bandaríkjanna í Írak árið 2003.

Mótmælendur kveiktu í bandaríska fánanum og hrópuðu ókvæðisorð sem beint var gegn hernaðaraðgerðum Vesturveldanna. Auk mótmæla í Bagdad kom fólk einnig saman í borgunum Najaf og Basra.

Hersveitir Sadr börðust gegn Bandaríkjamönnum í innrásinni árið 2003 en hann tók sjálfur þátt í mótmælunum í Najaf.

Ríkisstjórn Íraks sagði í dag að loftárásirnar á Sýrlandi gætu hrundið af stað hættulegri þróun öfgaafla á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert