Óttast að höfuðpaurinn sleppi

AFP

Þeir sem fyrirskipuðu morðið á blaðakonunni Daphne Caruana Galizia á Möltu á síðasta ári munu jafnvel aldrei nást segir fjölskylda hennar. Réttarhöld eru að hefjast yfir þremur mönnum sem sakaðir hafa verið um morðið. 

Eiginmaður Galizia, Peter Caruana Galizia, er í viðtali við Guardian í gær en um fyrsta viðtalið er að ræða sem hann veitir frá því kona hans var myrt fyrir hálfu ári.

Hann segist sannfærður um að morðið hafi verið fyrirskipað af maltneskum einstaklingum og að stjórnmálamenn séu að reyna að tefja fyrir réttvísinni. Hann óttast að sá sem fyrirskipaði morðið verði aldrei dreginn til ábyrgðar, of mikið sé í húfi fyrir ríkisstjórn Möltu til þess að svo verði.

Bif­reið Car­una Galizia var sprengd upp skammt frá heim­ili hennar á Möltu í október en hún hafði meðal ann­ars unnið ít­ar­leg­ar frétt­ir um spill­ing­ar­mál tengd­ for­sæt­is­ráðherra lands­ins, Joseph Muscat, og nán­um sam­starfs­mönn­um hans og fjöl­skyldu.

Það er augljóst að okkar mati að mennirnir þrír voru einfaldlega verktakar sem ráðnir voru til verksins af þriðja aðila, segir hann í viðtalinu. „Ég og synir mínir erum ekki sannfærðir um að ríkisstjórn okkar hafi yfir höfuð áhuga á  að komast að því hverjir sendu þá af ótta við að þeir tengist mjög náið ríkisstjórninni. Af þeirri ástæðu munum við kannski aldrei fá að vita sannleikann,“ segir Galizia.

Þremenningarnir neita allir sök en lögreglan er enn að safna saman gögnum og er það í höndum saksóknara að ákveða hvort málinu verður vísað frá eða þeir saksóttir fyrir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert