Játaði að hafa myrt stúlkuna

Ali Bashar er tvítugur að aldri.
Ali Bashar er tvítugur að aldri. AFP

Íraki, sem var synjað um hæli í Þýskalandi, hefur viðurkennt að hafa myrt þýska unglingsstúlku, að sögn yfirvalda í Kúrdistan-héraði í Írak. Hann var handtekinn í gærmorgun.

Ali Bashar, sem er tvítugur að aldri, er talinn hafa kyrkt 14 ára gamla stúlku, Susanna Maria Feldman, eftir að hafa nauðgað henni í þýsku borginni Wiesbaden.

Mikil reiði greip um sig í Þýskalandi eftir að lögreglan staðfesti að Bashar hafi náð að flýja úr landi ásamt fjölskyldu sinni. 

„Þegar hann var yfirheyrður eftir handtökuna játaði ungi maðurinn, sem kemur frá Kúrdistan, að hafa myrt þýsku stúlkuna,“ segir Tariq Ahmad, lögreglustjóri í Dohuk. Ahmad segir að Bashar hafi sagt að þau hefðu verið vinir en rifist og hann hafi drepið hana eftir að hún hótaði að hringja í lögregluna.

Unnið er að því að framselja hann til Þýskalands en þar sem enginn opinber framsalssamningur er í gildi milli Þýskalands og Íraks er óvíst hvort af því verði.

Bashar kom til Þýskalands árið 2015 ásamt foreldrum og fimm systkinum. Hann fékk tímabundið dvalarleyfi eftir að umsókn hans um hæli var synjað í desember 2016 eftir að hafa áfrýjað niðurstöðunni. Hann hefur síðan þá ítrekað komist í kast við lögin, svo sem fyrir slagsmál, rán og vörslu fjaðurhnífs sem er bannaður með lögum í Þýskalandi. Hann er jafnframt einn þeirra sem er grunaður um að hafa tekið þátt í kynferðislegu ofbeldi gagnvart 11 ára gamalli stúlku sem bjó í sömu flóttamannamiðstöð og hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert