Fjöldi Tyrkja leitar hælis í Noregi

Tyrkirnir eru að flýja undan Recep Tayyip Erdogan forseta og …
Tyrkirnir eru að flýja undan Recep Tayyip Erdogan forseta og stjórn hans. AFP

Í júní leituðu 286 hælis í Noregi, þar af yfir helmingurinn frá Tyrklandi. Um 80% hælisumsókna í ár eru frá þessum hópi. Margir Tyrkjanna tengjast Gulen-hreyfingunni sem var sökuð um að reyna að steypa Recep Tayyip Erdogan forseta af stóli árið 2016. Fólkið segir tyrknesk stjórnvöld ofsækja það í kjölfarið. Yfir 100 þúsund manns hafa verið fangelsaðir í Tyrklandi í kjölfar valdaránstilraunarinnar. 

Áður voru það Kúrdar sem voru fjölmennastir í hópi Tyrkja sem sóttu um hæli í Noregi en nú hefur orðið breyting þar á, segir Knut Jostein Berglyd, starfsmaður móttökumiðstöðvar flóttamanna, í samtali við norska ríkisútvarpið.

Erdogan var endurkjörinn forseti Tyrklands nýverið. Andstæðingar hans segja kosningarnar ógildar og að kosningasvindl hafi verið stundað.

Í frétt norska ríkisútvarpsins segir að flestar hælisumsóknir Tyrkja sem tengjast Gulen-hreyfingunni hafi verið samþykktar í Noregi í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert