Smygluðu loðfílatönnum til Kína

Tollverðir í Kína skoða skögultennurnar sem hald var lagt á.
Tollverðir í Kína skoða skögultennurnar sem hald var lagt á. AFP

Kínversk tollayfirvöld lögðu hald á 156 forsögulegar skögultennur úr loðfílum. Tennurnar voru í flutningabíl sem var að koma frá Rússlandi. 

Smyglið uppgötvaðist í apríl er bíllinn kom yfir landamærin frá Síberíu til héraðsins Heilongjiang í Kína. Meðal skögultanna loðfílanna var einnig að finna fílabein. Var smyglvarningurinn falinn innan um sojabaunir.

Átta rússneskir og kínverskir menn hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins.

Kínversk stjórnvöld bönnuðu í fyrra sölu á fílabeini í landinu og fyrir þremur árum var innflutningur þess bannaður. Það hefur orðið til þess að smyglarar hafa snúið sér að því að grafa upp forsögulegar skögultennur loðfíla sem er að finna í jörðu víða í Síberíu. 

Í Kína er stór markaður fyrir varning sem búinn er til úr hornum og tönnum sjaldgæfra dýra. Tennurnar og hornin eru mulin niður og duftið selt sem lyf. Margsinnis hefur verið sýnt fram á að fílabein og nashyrningshorn, svo dæmi séu tekin, innihalda sama efni og er í fingurnöglum mannfólks og hafa því engan lækningamátt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert