17 látnir og yfir 100 saknað í Laos

Alls hafa fundist 17 lík eftir að stífla við vatnsaflsvirkjun í suðurhluta Laos brast í fyrrakvöld. Gríðarleg flóðbylgja fór yfir sjö þorp í nágrenninu þegar stíflan, sem var nánast tilbúin, gaf sig.

Enn er yfir 100 saknað en fjölmörg hús sópuðust burtu í vatnselgnum í nágrenni Xe-Namnoy-stíflunnar í Attepeu-héraði. Ekki er hægt að komast þangað nema með þyrlum og bátum þar sem vegirnir sópuðust í burtu í flóðunum. 

SK Engineering & Construction, suðurkóreskt fyrirtæki sem á hlut í vatnsaflsvirkjuninni, segir að sprungur í stíflunni hafi uppgötvast á sunnudagskvöldið. Á BBC er birt tímalína yfir það sem gerðist í kjölfarið:

  • Sunnudagur klukkan 21 (klukkan 14 að íslenskum tíma) koma skemmdir í ljós. Yfirvöld eru látin vita og byrjað að rýma þorp í nágrenninu. Viðgerðarteymi er sent til þess að gera við en það gengur brösuglega vega úrhellis. Rigning hafði einnig skemmt vegi í nágrenninu.
  • Mánudagur klukkan 3 að nóttu - vatni er veitt úr einni af helstu stíflum virkjunarinnar (Xe-Namnoy) í þeirri von að hægt verði að lækka vatnsyfirborð í hliðar-uppistöðulóninu.
  • Mánudagur klukkan 12 - héraðsstjórnin fyrirskipar þorpsbúum fyrir neðan virkjunina að yfirgefa heimili sín þegar í ljós koma frekari skemmdir á stíflunni. 
  • Mánudagur klukkan 18, tilkynnt um frekari skemmdir á stíflunni.
  • Þriðjudag klukkan 01:30 er þorp í nágrenni uppistöðulónsins sem er til hliðar komið á flot 
  • Þriðjudag klukkan 9:30 um morguninn eru sjö þorp komin á flot en alls búa um sex þúsund manns í þessum þorpum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert