Tuga saknað eftir eldana

Leit stendur enn yfir í Grikklandi að tugum manna sem er saknað eftir gróðureldana í og við Aþenu. Eldarnir brutust út á mánudagskvöld og hafa orðið að minnsta kosti 80 manns að bana. Bíl­ar og hús hafa brunnið til kaldra kola. Um mann­skæðustu skógar­elda í nú­tíma­sögu Evr­ópu er að ræða. 

Fólk reyndi að flýja eldana ým­ist á hlaup­um eða í bíl­um sín­um og 26 manns, sem ekki tókst að kom­ast und­an, fund­ust í faðmlög­um í húsi í strand­bæn­um Mati um 40 kíló­metr­um norðaust­ur af Aþenu. 

Margir leita nú ástvina sinna, m.a. einstaklinga sem náðu að flýja eldinn sjóleiðina. Yiannis Philippopoulos er í þeirra hópi, en hann leitar tveggja dætra sinna, níu ára tvíburasystra og hafa grískir fjölmiðlar eftir Philippopoulos  að hann hafi séð myndskeið í fjölmiðlum þar sem þeim var bjargað um borð í fiskibát.

Hann hefur ekki heyrt frá stelpunum, en BBC segir þær hafa verið með afa sínum og ömmu þegar eldarnir komu upp.

„Við vorum búin að heimsækja spítalana og lögreglu og slökkviliðið sagði að síðasta úrræðið væri að leita að þeim í líkhúsinu,“ sagði hann.  Sú leit skilaði ekki árangri, en þau hjónin hafa þegar gefið DNA-prufu til samanburðar, og kveðst Philippopoulos eftir það hafa séð frétt með mynd þar sem tveimur stúlkum sem líktust dætrum þeirra var bjargað.

Myndskeiðið var svo ítrekað sýnt í grískum fjölmiðlum í dag í von um að stúlkurnar fyndust. Síðar um daginn bárust hins vegar fréttir af því að stúlkurnar í myndskeiðinu hefðu verið um borð í bátnum með foreldrum sínum.

Ekki hafa enn verið gefnar upp tölur yfir hversu margra er enn saknað. Slökkvilið hefur fengið fjölda símtala, en hefur ekki geta gefið upplýsingar um nákvæman fjölda.

Þá hafa ættingjar þeirra sem saknað er birt myndir af að minnsta kosti 30 manns á samfélagsmiðlum í von um að fá upplýsingar um afdrif þeirra.

Strandgæslan hefur slætt strendurnar í nágrenni brunasvæðanna í dag í leit að bæði lifandi og liðnum og björgunarsveitir hafa leitað í húsum og bílum.

Rúmlega 70 manns eru enn á sjúkrahúsum vegna sára sem þeir hlutu í eldunum og er ástand 10 þeirra alvarlegt.

Meðal þeirra sem létust í eldunum voru belgískur ferðamaður og pólsk kona og sonur hennar. Þá eru breskur maður og kona meðal þeirra sem fá aðhlynningu á sjúkrahúsi vegna brunasára sinna.

Brunarústir í þorpinu Mati sem varð eldinum að bráð.
Brunarústir í þorpinu Mati sem varð eldinum að bráð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert