Segir Trump hafa vitað af fundinum

Michael Cohen og Donald Trump voru eitt sinn nánir. Svo …
Michael Cohen og Donald Trump voru eitt sinn nánir. Svo er ekki lengur. AFP

Michael Cohen, sem lengi var persónulegur lögfræðingur Donalds Trump, segir forsetann hafa vitað fyrir fram af fundi tengdasonar síns og Rússa sem fram fór Trump-turninum í júní árið 2016. Á fundinum var þess vænst að Rússar myndu deila upplýsingum sem kæmu Hillary Clinton, sem var í forsetaframboði gegn Trump á þessum tíma, illa. 

Jared Kushner, tengdasonur Trumps, Donald sonur hans og Paul Manafort, ráðgjafi í kosningateymi hans, sátu fundinn í New York 9. júní 2016. Til fundarins mætti rússneski lögfræðingurinn Natalia Veselnitskaya, sem greindi frá upplýsingum frá rússneskum stjórnvöldum.

Trump, sonur hans, lögfræðingar hans og fleiri sem standa honum nærri hafa ítrekað neitað því að Trump hafi vitað nokkuð um fundinn. Upplýsingar um að fundurinn hefði farið fram komust ekki í hámæli fyrr en í júlí í fyrra.

En að því er fram kemur nú í fréttum bandarísku fréttastöðvanna CNN og NBC heldur Michael Cohen, lögmaðurinn tryggi til margra ára, því nú fram að hann hafi verið viðstaddur er sonur Trumps greindi föður sínum frá því að fundurinn stæði til.Trump hafi lagt blessun sína yfir það.

Donald Trump yngri sat fundinn með rússneska lögfræðingnum.
Donald Trump yngri sat fundinn með rússneska lögfræðingnum. AFP

Rob Goldstone, umboðsmaður tónlistarfólks, hafði samband við Trump yngri og sagðist hafa opinberar upplýsingar sem myndu sverta Hillary Clinton. Upplýsingarnar sagði hann geta nýst Donald Trump í kosningabaráttunni.

Trump yngri er sagður hafa svarað „frábært“ en hefur síðar sagt að á fundinum hafi ekki komið fram neinar upplýsingar sem „máli skiptu“ og að á honum hefði fyrst og fremst verið rætt um ættleiðingar barna frá Rússlandi.

CNN hefur eftir heimildarmönnum að Cohen skorti sannanir fyrir því að Trump hafi vitað af fundinum. Í kekki kastaðist milli Trump og Cohen nýverið er sá síðarnefndi upplýsti að hann hefði tekið upp samtal sitt við forsetann er rætt var um greiðslur til fyrirsætu sem hótaði að gera samband sitt við Trump opinbert. Og nú er spurt hvort Cohen hafi einnig tekið upp samtal Trump-feðga um hinn fyrirhugaða fund með Rússum.

Bæði CNN og NBC segja að Cohen sé viljugur til að gefa Robert Mueller, sérstökum saksóknara sem rannsakar afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum, upplýsingar um málið.

Mueller hefur þegar ákært 31, þar á meðal tólf rússneska leyniþjónustumenn, fyrir afskipti sín, m.a. fyrir að hafa brotist inn í tölvukerfi demókrata í aðdraganda kosninganna.

Cohen var í fleiri ár náinn samstarfsmaður Trumps. Hann er nú til rannsóknar vegna viðskiptagjörninga sinna í New York og hvort meintar mútugreiðslur hans til m.a. fyrirsætunnar, hafi brotið gegn lögum um kosningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert