Engin merki um pyntingar

Rússnesku blaðamennirnir Alexander Rastorguyev, Kirill Radchenko og Orkhan Dzhemal voru …
Rússnesku blaðamennirnir Alexander Rastorguyev, Kirill Radchenko og Orkhan Dzhemal voru skotnir til bana í Mið-Afríkulýðveldinu. AFP

Rússnesk yfirvöld segja engin ummerki um pyntingar á líkum þriggja rússneskra blaðamanna sem drepnir voru við störf sín í Mið-Afríkulýðveldinu fyrr í þessari viku. 

„Samkvæmt upplýsingum frá rússneska sendiráðinu í Mið-Afríkulýðveldinu fann læknir engin merki um pyntingar, aðeins skotsár,“ segir Maria Zakharova, talsmaður rússneska utanríkisráðuneytisins.

Blaðamennirnir Kirill Radchenko, Alexadner Rastorguyev og Orkhan Dzhemal voru drepnir er þeir voru að afla frétta í Mið-Afríkulýðveldinu þar sem mikil ólga er og átök blossa endurtekið upp.

Þremenningarnir voru að afla sér upplýsinga um fyrirtæki sem kallast Wagner Group sem sendir rússneska málaliða til átakasvæða eins og Sýrlands og Úkraínu og hefur verið lýst sem skuggahersveit.

Í gær upplýstu stjórnvöld í Mið-Afríkulýðveldinu að þeir hefðu verið skotnir til bana af hópi níu árásarmanna. Í fréttum hefur svo komið fram að árásarmennirnir virðist hvorki hafa talað frönsku né sango sem eru þau tungumál sem töluð eru af almenningi í landinu. Árásarmennirnir ætluðu að ræna búnaði blaðamannanna. Einn þremenninganna er sagður hafa mótmælt því og hófst þá skothríð. Einn þeirra lést á staðnum en hinir tveir síðar af sárum sínum.

Þessar upplýsingar eru hafðar eftir bílstjóra blaðamannanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert