Merkel fordæmir skrílslæti öfgafólks

Fjöldi mótmælenda kom lögreglu í opna skjöldu.
Fjöldi mótmælenda kom lögreglu í opna skjöldu. AFP

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að það verði ekki liðið að fólk taki lögin í eigin hendur. Ólga hefur ríkt með öfgahægrimanna eftir að morð var framið í borginni Chemnitz.

Átök hafa brotist út eftir mótmæli í kjölfar þess að Þjóðverji var stunginn til bana aðfaranótt sunnudags. Lögregla hefur handtekið tvo menn, frá Sýrlandi og Írak, í tengslum við morðið.

Öfgamennirnir og fótboltabullur sem kalla sig „Kaotic Chemnitz“ hvöttu fólk til að sýna „hverjir ráða“.

Á myndskeiðum sem hefur verið dreift á Twitter má sjá mótmælendur hrópa „Við erum fólkið“ og „þetta er borgin okkar.“

Einnig hefur verið greint frá því að örfáir mótmælendur hafi elt uppi útlendinga. Mótmælendur hafa hent flöskum í átt að lögreglu, sem hefur fengið aðstoð frá nágrannabæjum.

Ekki er vitað hvað olli því að maður var stunginn til bana aðfaranótt sunnudags þegar bæjarhátíð fór fram. Fórnarlambið var 35 ára karlmaður en auk þess særðust tveir aðrir Þjóðverjar alvarlega.

Sýrlendingurinn sem er í haldi lögreglu er 23 ára og Írakinn 22 ára. Lögregla segir að það sé ekkert til í því að átökin hafi blossað upp í tengslum við kynferðislega áreitni gegn konum á svæðinu.

Ráðast á fólk sem „lítur ekki út fyrir að vera þýskt“

Upphaflega komu um 100 manns saman í gær til að mótmæla og fóru þau friðsamlega fram. Síðar sama dag komu um 800 manns saman við minnisvarða um Karl Marx í miðbænum en fjöldi mótmælenda virðist hafa komið lögreglu í opna skjöldu.

Blaðamaður á staðnum segist hafa orðið vitni að því að einhverjir hafi ráðist á fólk „sem leit ekki út fyrir að vera þýskt“. Öfgasamtökin Pegida boðuðu til frekari mótmæla í dag. 

„Ef ríkið getur ekki varið íbúa þá verður fólkið að fara út á göturnar og verja sig sjálft. Málið er það einfalt!“ skrifaði Markus Frohnmaier, þingmaður þjóðernisflokksins AfD, á Twitter.

„Í dag er skylda borgara að stöðva banvæna „hnífa þjóðflutninga“. Þeir hefðu getað ráðist á föður þinn, son eða bróður!“ bætti Frohnmaier við.

„Samkomur þar sem ráðist er að fólki sem lítur öðruvísi út eða þar sem gerðar eru tilraunir til að dreifa hatri á götum úti verða ekki liðnar,“ sagði Steffen Seibert, talsmaður Merkel. Hann bætti því við að þýska ríkisstjórnin fordæmdi slíkar aðgerðir.

„Okkar skilaboð til Chemnitz og fleiri staða er að fólk getur ekki tekið lögin í sínar hendur. Það að fólk sé að dreifa hatursáróðri á götum úti verður ekki liðið í Þýskalandi.“

Martina Renner, þingkona vinstri flokksins Left party, sakar öfgamenn um að notfæra sér morðið í pólitískum tilgangi.

„Hræðilegt morð, þar sem við vitum ekki hvað lá að baki, er notað til að kynda undir andstyggilegum rasískum skrílslátum í Chemnitz,“ skrifaði hún á Twitter.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert