Breytingar á eftirlaunakerfi mildaðar

Vladimir Pútín í sjónvarpsávarpinu.
Vladimir Pútín í sjónvarpsávarpinu. AFP

Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur ákveðið að milda þær breytingar sem hann ætlaði að gera á eftirlaunakerfi landsins. Með því er hann sagður bregðast við harðri gagnrýni vegna áformanna og dvínandi vinsældum í sinn garð.

Í sjónvarpsávarpi lagði Pútín til að eftirlaunaaldur ríkisstarfsmanna yrði hækkaður um fimm ár hjá konum, eða í 60 ár, í stað fyrri tillögu um að hækka hann um átta ár.

„Konur fá sérstaka og blíða meðferð í landinu okkar,“ sagði Pútín í ræðu sinni sem stóð yfir í hálftíma.

Hann hélt sig við upphaflega tillögu sína um að eftirlaunaaldur karla verði hækkaður um fimm ár, eða í 65 ár.

Hann sagði að fólki á vinnumarkaði væri að fækka  og því þurfi að gera þessar breytingar.

Pútín, sem er 65 ára, lagði einnig til að mæður með stórar fjölskyldu gætu farið fyrr á eftirlaun.

Sergei Udaltsov, aðgerðasinni hjá Left Front, ávarpar almenning á mótmælafundi …
Sergei Udaltsov, aðgerðasinni hjá Left Front, ávarpar almenning á mótmælafundi vegna eftirlaunaáformanna í júlí. AFP

Tugir þúsunda hafa mótmælt

Hann bætti við að fyrirtæki sem reka eða neita að ráða starfsmenn vegna þess að þeir nálgast eftirlaunaaldur ættu að eiga refsingu yfir höfði sér.

Neðri deild rússneska þingsins samþykkti umbæturnar í síðasta mánuði, við mikla óánægju almennings. Tugir þúsunda hafa farið í mótmælagöngur víða um Rússland undanfarnar vikur.

Búist hafði verið við því að Pútín mildaði tillögur sínar til að bregðast við óánægjuröddunum.

Ólíkt sumum vestrænum ríkjum eru eftirlaun í Rússlandi mjög lág og margir þurfa að halda áfram að vinna eftir að eftirlaunaaldri er náð til að hafa í sig og á, á meðan aðrir þurfa að reiða sig á peningaaðstoð frá börnum sínum.

AFP

Lifa ekki nógu lengi

Stéttarfélög segja að margir muni ekki lifa nógu lengi til að komast á eftirlaun.

Í vef BBC kemur fram að lífslíkur rússneskra karla séu 66 ár en kvenna 77 ár, að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert