Skaut húsráðandann til bana

Wikipedia

Mótmæli hafa farið fram í Texasríki í Bandaríkjunum þar sem þess er krafist að lögreglukona verði dæmd í fangelsi fyrir að hafa farið inn í íbúð í Dallas sem hún taldi vera sína og skotið húsráðandann til bana. Hinn látni var svartur karlmaður.

Fram kemur í frétt AFP að lögreglukonan hafi ekki verið nafngreind en til standi að ákæra hana fyrir manndráp. Mótmælendur segja að ef ekki væri um að ræða lögregluþjón væri sá hinn sami þegar á bak við lás og slá. 

Meðal þess sem rannsókn lögreglu snýr að er hvort lögreglukonan hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Atburðurinn átti sér stað síðasta fimmtudagskvöld eftir að vakt lögreglukonunnar var lokið og hún hélt heim á leið.

Lögreglan segist ekki vita hvaða samskipti fóru fram á milli lögreglukonunnar og fórnarlambsins, Bothams Shems Jeans, sem var innflytandi frá karabíska eyríkinu Sankti Lúsíu. Eftir að hafa skotið Jean hringdi konan á neyðarlínuna.

Fram kom í samtali lögreglukonunnar við starfsmann neyðarlínunnar að hún teldi sig vera í eigin íbúð. Jean hafði útskrifast úr háskóla í Bandaríkjunum og starfaði hjá endurskoðunarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers í Dallas.

Haft er eftir móður Jeans, Allison Jean, sem lengi hefur starfað í ríkisstjórn Sankti Lúsíu, að upplýsingar um dauða sonar hennar séu ruglingslegar. Hann hafi ekki verið á röngum stað á röngum tíma heldur heima hjá sér, þar sem hann hefði átt að vera öruggur.

Mikil umræða og mótmæli hafa farið fram í Bandaríkjunum á undanförnum árum vegna mála þar sem lögreglumenn hafa skotið einkum svarta karlmenn til bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert