Herða árásir á Hodeida

Ónýtur bíll í nágrenni Hodeida eftir loftárás.
Ónýtur bíll í nágrenni Hodeida eftir loftárás. AFP

Að minnsta að kosti 32 uppreisnarmenn hafa fallið í átökum og árásum í og við hafnarborgina Hodeida í Jemen um helgina. Friðargæslulið frá Sameinuðu þjóðunum reynir að sjá til þess að friður ríki í höfuðborginni Sanaa.

Í frétt AFP-fréttastofunnar segir að herbandalag undir forystu Sádi-Araba hafi barist við hlið jemenskra hersveita gegn uppreisnarmönnum húta. Gerðar hafa verið loftárásir, m.a. á fjarskiptamastur í hafnarborginni.

Þrír féllu í árásunum í dag og eru þeir allir sagðir hafa verið öryggisverðir á sjónvarpsstöð sem hútar reka og árás var gerð á.

Þá segja heilbrigðisstarfsmenn í Hodeida-héraði að í það minnsta 32 uppreisnarmenn hafi fallið og fjórtán aðrir særst í árásum um helgina.

Herbandalagið, sem er undir forystu Sádi-Araba en Bandaríkjamenn og Bretar eiga m.a. aðild að, sakar hútana um að hafa smyglað vopnum frá Íran og til Jemen. Hútar hertóku Hodeida árið 2014.

Í júní hóf stjórnarher Jemen áhlaup á Hodeida í þeim tilgangi að ná þar aftur völdum og þar með völdum yfir mikilvægari siglingaleið. Þegar hefur þeim tekist að ná völdum í bæjum í nágrenni borgarinnar en sjálf Hodeida er enn á valdi uppreisnarmanna. 

Sádi-Arabar, sem eiga landamæri að Jemen, hófu afskipti af borgarastríðinu í Jemen árið 2015 og síðan þá hafa um 10 þúsund manns fallið. Milljónir eru á barmi hungursneyðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert