„Hættið að mynda, þetta er nauðgun!“

Franska lögreglan rannsakar málið. Myndin er úr safni.
Franska lögreglan rannsakar málið. Myndin er úr safni. AFP

Lögreglan í Frakklandi hefur til rannsóknar hópnauðgunarmál þar sem fjórir menn eru grunaðir um að hafa ráðist á 19 ára gamla stúlku í borginni Toulouse. Þá var myndskeið sem sýnir árásina birt á samfélagsmiðlum.

Árásin átti sér stað við skemmtistað í borginni aðfaranótt sunnudags eða snemma á sunnudagsmorgun, að því er fram kemur í frönskum fjölmiðlum. 

Fram kemur á vef BBC, að myndefnið hafi verið birt á Snapchat og Twitter á mánudag. Lögreglan hefur nú lokað fyrir aðgang að myndefninu eftir að notendur tilkynntu það til yfirvalda. 

Rannsóknarlögreglumenn hafa borið kennsl á konuna sem hefur staðfest að hún hafi orðið fyrir árás. 

Saksóknarar segja að það sé engum vafa undirorpið að glæpur hafi verið framinn. Þeir vita hins vegar ekki með vissu hvort konan hafi ákveðið að kæra atvikið, en saksóknarar segja að málið verði rannsakað hvort sem kæra berist frá konunni eður ei. 

Lögreglan vinnur nú að því að bera kennsl á að minnsta kosti einn af árásarmönnunum, en þeir eru sagðir vera á aldrinum 25 til 30 ára. Þeir sáust við bílastæði við næturklúbb í Balma, sem er úthverfi í austurhluta borgarinnar. 

Í myndskeiðinu heyrist konan gráta. Þá heyrast aðrar raddir, sem eru taldar vera raddir árásarmannanna, og það virðist vera ljóst að þeir átti sig á því að þeir eru að brjóta á konunni. Ein rödd heyrist mjög greinilega kalla: „Hættið að mynda, þetta er nauðgun!“

Saksóknarar segja að einnig sé unnið að því að rannsaka hver tók myndskeiðið og dreifði því á samfélagsmiðlum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert