Ákærð fyrir mótmæli í flugvél

Elin Ers­son kom í veg fyr­ir að af­gansk­ur hæl­is­leit­andi yrði …
Elin Ers­son kom í veg fyr­ir að af­gansk­ur hæl­is­leit­andi yrði send­ur aft­ur til Af­gan­ist­an frá Svíþjóð með því að neita að setj­ast niður í flug­vél­inni sem átti að flytja mann­inn. Ljósmynd/Twitter

Elin Ersson, 21 árs sænsk baráttukona og háskólanemi, hefur verið ákærð fyrir að vera með mótmæli um borð í flugvél þegar hún kom í veg fyr­ir að af­gansk­ur hæl­is­leit­andi yrði send­ur aft­ur til Af­gan­ist­an frá Svíþjóð með því að neita að setj­ast niður í flug­vél­inni sem átti að flytja mann­inn.

Atvikið átt sér stað í júlí og sýndi Ersson frá aðgerðum sín­um á Face­book-síðu sinni þar sem hún á í nokkuð hörðum orðaskipt­um við áhöfn vél­ar­inn­ar og aðra farþega. Að lokum var henni og afganska manninum fylgt út úr vélinni og inn í Landvetter-flugstöðina í Gautaborg. Maðurinn var síðar fluttur úr landi.

Ákæran er gefin út af héraðsdómi í Gautaborg og í henni kemur fram að Ersson hafi brotið sænsk flugmálalög með því að neita að sitja á meðan flugmaður vélarinnar bjó hana undir flugtak. Brot á lögunum kveða á um sektir eða allt að sex mánaða fangelsisvist.

Lögmaður Ersson, Thomas Fridh, segir að Ersson hafi ekki brotið nein lög með gjörðum sínum. „Á meðan aðgerðunum stóð var hún tilbúin til að fara að fyrirmælum flugstjórans og hún yfirgaf  vélina um leið og flugstjórinn ákvað að hún ætti að gera það,“ segir Fridh í tölvupósti sem hann sendi á blaðamann New York Times sem fjallað hefur um málið. Þá segir hann að sænsk flugmálalög eigi aðeins við um aðgerðir í háloftunum.

Í yfirlýsingu sem Ersson sendi frá sér um helgina segir hún að hún muni halda áfram að berjast fyrir réttindum hælisleitenda sem eru sendir aftur til Afganistan. „Að senda einhvern þangað er eins og að senda einhvern í dauðann. Sem manneskja sem er á móti dauðarefsingum er það eina rétta í stöðunni að standa upp fyrir þeim sem verið er að vísa úr landi og beint í stríð,“ segir Ersson.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert