Mátti ekki kalla Múhameð barnaníðing

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu. Ljósmynd/ECHR

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp dóm þess efnis að það sé ekki skerðing á tjáningarfrelsi að vera dæmdur fyrir að kalla spámanninn Múhameð barnaníðing. Austurrísk kona var dæmd til sektargreiðslu fyrir þau ummæli sem hún lét falla á fyrirlestri árið 2009.

Konan sagði Múhameð barnaníðing vegna hjónabands hans með hinni sex ára Aishu en samkvæmt íslömskum hefðum sváfu þau fyrst saman þegar hún var níu ára og Múhameð fimmtugur.

Dómstóll í Austurríki benti á að konan hefði talað um að Múhameð hefði stundað kynlíf með barni. „Hvað köllum við það annað en barnaníð?“ sagði hún.

Hún var sakfelld fyrir ummæli sín fyrir austurrískum dómstólum en þau voru sögð handan marka tjáningarfrelsis. Hún var dæmd til að greiða 480 evrur í sekt.

Konan hélt því hins vegar fram að ummæli hennar væru innan marka tjáningarfrelsis og að trúarhópar yrðu að þola gagnrýni.

Hún hefur haldið því fram að skilgreiningar og gildi samfélagsins á því hvað flokkist sem barnaníð sé öðruvísi nú en þegar Múhameð var uppi. Þrátt fyrir það eigi orð hennar erindi til almennings.

Hún var ósátt við dómsniðurstöðuna í Austurríki og sendi málið til Mannréttindadómstólsins. Hann staðfesti austurríska dóminn.

Að mati dómsins er konan sérfræðingur sem setti fram gildishlaðna fullyrðingu sem hún vissi að væri ekki samkvæmt sannleikanum. Auk þess hefði konan ekki leyft umræðu um ummælin og voru þau skilgreind sem hatursorðræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert