Nautið Nærbuxur það þyngsta í heimi

Nautið Knickers er 1,95 metrar á hæð og 1,4 tonn …
Nautið Knickers er 1,95 metrar á hæð og 1,4 tonn að þyngd. Ljósmynd/Twitter

Nautið Knickers fer ekki fram hjá neinum þar sem það gnæfir yfir kúahjörðina Myalup í vesturhluta Ástralíu. Knickers er hvorki meira né minna en 1,95 metrar á hæð, eða jafn hávaxinn og körfuboltastjarnan Michael Jordan, og vegur um 1,4 tonn.

Knickers, sem er sjö ára gamall, er af geldnautategundinni Holstein-Friesian og vega naut af þeirri tegund að meðaltali 680 kíló og eru um 1,2 metrar að stærð. Knickers er því rúmlega tvöfalt þyngri en öll hin nautin í hjörðinni.

Til samanburðar má nefna að íslenska nautið Guttormur, sem var um tíma þyngsta naut landsins, vó 942 kíló þegar hann var sem þyngstur, árið 2001.

Of þungur fyrir sláturhúsið

Þó að stærðin geti flækst fyrir Knickers hefur hún bjargað lífi hans þar sem hann er of stór og þungur fyrir heimsókn í sláturhúsið.

„Hann er of þungur og passar ekki inn í sláturferlið,“ segir Geoff Pearson, eigandi Knickers, í samtali við ástralska fjölmiðla. „Ég held að hann muni því bara lifa hamingjusamur til æviloka.“

Sökum stærðar sinnar mun Knickers sleppa við heimsókn í sláturhúsið …
Sökum stærðar sinnar mun Knickers sleppa við heimsókn í sláturhúsið og fá að lifa hamingjusamur til æviloka. Ljósmynd/Twitter

Nærbuxurnar tóku við af brjóstahaldaranum

Pearson keypti nautið á sínum tíma fyrir tæpa 400 dollara, eða sem nemur rúmlega 36.000 krónum, í þeim tilgangi að láta það leiða hjörðina, sem það hefur gert með glæsibrag. Áður hafði naut af Brahman-ætt leitt hjörðina. „Hann hét því bra (brjóstahaldari) og þá lá beinast við að nefna hinn nýja Knickers (nærbuxur). En við héldum aldrei að við myndum eignast svona stórar nærbuxur,“ segir Pearson.

Knickers er eftir því sem best er vitað þyngsta naut heims, en naut af ítölsku tegundinni Chianina slær Knickers við þegar kemur að hæð, en eitt slíkt hefur mælst yfir tveir metrar á hæð.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert