Frusu í hel á landamærunum

AFP

Lík þriggja flóttamanna hafa fundist á þremur stöðum við landamæri Tyrklands. Vitað er að gríska lögreglan hafði skilað einum þeirra til baka yfir landamærin eftir að hann hafði óskað eftir aðstoð.

Að sögn tyrknesku fréttastofunnar Anadolu fannst lík Afgana skammt frá landamærum Grikklands í þorpinu Serem sem er í Edirne-héraði. Lík hinna tveggja fundust í nærliggjandi þorpum, Akcadam og Adasarhanli, en talið er að einhverjir dagar séu síðan þeir létust. Þjóðerni þeirra hefur ekki verið gefið upp. Lík flóttamannanna hafa verið flutt til Istanbul þar sem þau verða rannsökuð af réttarmeinafræðingum. 

Afganskur flóttamaður, Jamaluddin Malangi, sagði blaðamönnum í Edirne að gríska lögreglan hafi sent hann með bát yfir Evros, en fljótið liggur á landamærum ríkjanna, ásamt hópi flóttafólks. Einn þeirra hafi verið sá sem fannst frosinn í hel. Fjölmargir flóttamenn fara um svæðið á leið sinni til Evrópu.

Að sögn Malangi höfðu þeir reynt að fá aðstoð eftir að þeir komu til Grikklands og gengið á milli húsa og bankað á dyr. „Við reyndum að fá hjálp og svo virðist sem einhver hafi hringt á lögreglu því gríska lögreglan kom og tók okkur. Fyrst fóru þeir með okkur á lögreglustöð en síðan að ánni þar sem tveir bátar biðu,“ segir Malangi í viðtali við Anadolu. Hann segir að þeir hafi síðan verið sendir yfir ána til Tyrklands.

Ekki er vitað á þessari stundu hvort flóttamennirnir þrír sem fundust látnir voru allir í sama hópnum sem var sendur til baka frá Grikklandi ásamt Malangi eða hvort þeir hafi verið einir á ferð á leið sinni til Evrópu.

Að sögn grískra yfirvalda er vitað til þess að um 14 þúsund hafi komið þessa leið yfir landamæri Tyrklands til Grikklands en í fyrra var fjöldinn mun minni eða 5.500. 

Skjáskot af World Press
Flóttamannabúðirnar Moria á grísku eyjunni Lesbos.
Flóttamannabúðirnar Moria á grísku eyjunni Lesbos. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert