May fær þrjá daga í stað 21

Theresa May á breska þinginu.
Theresa May á breska þinginu. AFP

Breskir þingmenn samþykktu í atkvæðagreiðslu í dag að þvinga Theresu May forsætisráðherra til að vera að snögga að leggja fram nýja Brexit-áætlun ef hún tapar mikilvægri atkvæðagreiðslu í næstu viku um samning vegna útgöngu Breta úr ESB.

Ákveðið var að fækka þeim dögum sem May hefur til að koma með nýja áætlun úr 21 degi í þrjá.

Þingmenn úr Íhaldsflokki May hvöttu til atkvæðagreiðslunnar af ótta við að frestun ákvörðunar um nýja áætlun gæti aukið hættuna á að Bretar yfirgefi ESB 29. mars án þess að vera með nokkurn samning í höndunum.

Þetta er annað áfallið fyrir May á tveimur dögum því breska þingið samþykkti seint í gærkvöldi að neita ríkisstjórninni um ákveðin völd þegar kemur að skattlagningu ef ekkert verður af samningi Breta við ESB um útgönguna.

„Eina leiðin til að komast hjá engum samningi er að kjósa samninginn,“ sagði May fyrr í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert