Hefur fengið mörg hundruð líflátshótanir

Enes Kanter í leik með New York Knicks.
Enes Kanter í leik með New York Knicks. AFP

Körfuboltamaðurinn Enes Kanter segir að hann hafi fengið mörg hundruð líflátshótanir síðan hann sagði síðasta föstudag að hann myndi ekki fara með liði sínu til London vegna þess að hann óttaðist um líf sitt.

Kanter, sem er tyrkneskur og leikur með New York Knicks í NBA-deildinni, hefur gagnrýnt Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta opinberlega. Saksóknarar í Tyrklandi fóru fram á það fyrir jól að Kanter yrði dæmdur í fjögurra ára fangelsi vegna þess. 

Kan­ter er op­in­ber stuðnings­maður Fet­hullah Gulen, mús­limska klerks­ins sem Tyrk­ir saka um mis­heppnuðu vald­aránstilraun­ina í Tyrklandi 2016, en hann nýt­ur skjóls í Banda­ríkj­un­um.

Segir stöðuna sorglega

„Ég myndi glaður vilja fara til London. Þetta er sorgleg staða vegna þess að ég óttast um líf mitt vegna aðgerða Erdogan. Það er vel þekkt að hann sendi sveitir á eftir fólki sem talar gegn ríkisstjórninni,“ sagði Kanter.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Kanter sagði að honum liði eins og hann væri hvergi öruggur nema í Bandaríkjunum. „Ég vil þakka stuðningsmönnum Knicks og Bandaríkjamönnum fyrir stuðninginn. Mér líður eins og Bandaríkjamanni og ég verð ríkisborgari hér eftir tvö ár. Núna líður mér eins og ég sé ekki öruggur utan Bandaríkjanna.“

„Hitler 21. aldarinnar“

Samkvæmt frétt ESPN kallaði Kanter Erdogan vitleysing, brjálæðing og einræðisherra eftir leik í síðustu viku. Kanter bætti því við að hann myndi ekki fara til London í leikinn gegn Washington Wizards 17. janúar.

Kanter, sem áður hefur lýst Erdogan sem „Hitler 21. aldarinnar“, segir að hann óttist um líf sitt í London vegna margra stórra tyrkneskra samfélaga í borginni. „Þar eru margir brjálaðir stuðningsmenn forsetans,“ sagði Kanter við BBC fyrr í vikunni.

Óþarfa áhætta að ferðast til London

„Eftir að ég sagði frá ákvörðun minni hef ég fengið mörg hundruð líflátshótanir nánast daglega. Ég er hræddur og það er sorglegt að sjá tyrkneskt fólk, mitt fólk, hóta mér,“ sagði Kanter við CNN. 

Kanter bætti því við að fyrst hefðu yfirmenn Knicks sagt honum að hann gæti ferðast til London en þá mætti hann ekki yfirgefa hótelherbergið og öryggisverðir myndu fylgja honum allan sólarhringinn. Síðar hafi niðurstaðan verið sú að það væri óþarfi að taka áhættuna.

Í maí 2017 var Kanter stöðvaður á flugvelli í Rúmeníu eftir að sendiráð Tyrklands í landinu fyrirskipaði að vegabréf hans yrði gert ógilt. Hann komst til Bandaríkjanna degi síðar. 

Ráðgjafi Erdogan sakar Kanter um lygar

Fyrrverandi NBA-leikmaðurinn og núverandi ráðgjafi Erdogan, Hidayet Turkoglu, skrifaði á Twitter að ummæli Kanter væru fáránleg og að þau séu hluti af herferð hans gegn Tyrklandi. Turkoglu heldur því fram að Kanter ferðist ekki til London vegna vegabréfsvandamála.

„Þetta er sorglegt vegna þess að við vorum mjög góðir vinir árið 2011,“ sagði Kanter um Turkoglu. „Ég veit að hann setti þetta ekki sjálfur þarna inn. Ég veit að ríkisstjórnin lét hann gera þetta,“ sagði Kanter og ítrekaði að hann gæti farið til London ef hann vildi:

„Liðið mitt sagði mér að það væri best að halda kyrru fyrir. Það er sorglegt að tyrkneskir fjölmiðlar saki mig um lygar. Ég get sýnt fram á það að ég er ekki að ljúga. Ég get farið hvert sem er í heiminum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert