Erdogan vill NBA-stjörnu í fangelsi

Enes Kanter lendir hér upp á kant við LeBron James.
Enes Kanter lendir hér upp á kant við LeBron James. AFP

Saksóknarar í Tyrklandi hafa farið fram á það að Enes Kanter, leikmaður New York Knicks í NBA-deildinni í körfuknattleik, verði dæmdur í fjögurra ára fangelsi.

Ástæðan er sú að Kanter, sem er Tyrki, á að hafa opinberlega gagnrýnt Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, en Erdogan er þekktur fyrir að ganga hart gegn gagnrýnendum sínum. Á Kanter að hafa gagnrýnt forsetann í nokkrum skrifum á Twitter-síðu sinni um mitt ár 2016.

Kanter er opinber stuðningsmaður Fethullah Gulen, mús­límska klerks­ins sem Tyrk­ir saka um mis­heppnuðu vald­aránstilraun­ina í Tyrklandi í fyrra, en hann nýtur skjóls í Bandaríkjunum.

Óvíst er hvort Kanter verði dæmdur og hvað þá að hann muni þurfa að sitja af sér dóminn í heimalandinu. Samkvæmt fréttum hefur tyrkneska vegabréfið hans verið fellt úr gildi og því óvíst hvort hann getur snúið aftur til heimalandsins nema þá til þess að vera stungið í steininn. Hann hefur leikið í NBA-deildinni frá árinu 2011 og verið á mála hjá Utah Jazz, Oklahoma City Thunder og nú New York Knicks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert