Rætt um framtíð Qunun

AFP

Utanríkisráðherra Ástralíu hefur ekki viljað svara spurningum blaðamanna um hversu langan tíma það mun taka ríkisstjórn landsins að svara beiðni Sameinuðu þjóðanna um að veita ungri sádiarabískri konu sem flúði fjölskyldu sína alþjóðlega vernd.

Konur sem styðja málstað ungu konunnar, Rahaf Mohammed al-Qunun, komu saman í Sydney í dag til að hvetja stjórnvöld til þess að veita henni vernd. Mjög er tekist á um forræðislög í Sádi-Arabíu en þau þykja afar afturhaldssöm.

Utanríkisráðherra Ástralíu, Marise Payne.
Utanríkisráðherra Ástralíu, Marise Payne. AFP

Rahaf Mohammed al-Qunun, sem er 18 ára gömul, segist óttast um líf sitt og flúði fjölskyldu sína í Kúveit um helgina. Í gær staðfesti Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna að hún félli undir skilgreiningu SÞ á flóttafólki og því beri aðildarríkjum samningsins að veita henni vernd. 

Utanríkisráðherra Ástralíu, Marise Payne, ræðir nú mál Qunun við yfirvöld í Taílandi. Payne er í Taílandi þar sem hún fundar með starfsbróður sínum. Hún segir mál Qunun í vinnslu en útilokar að Qunun fylgi henni til Ástralíu síðar í dag og ekki sé hægt að segja til um hversu langan tíma taki að leysa málið. 

Rahaf Mohammed al-Qunun.
Rahaf Mohammed al-Qunun. AFP

Qunun segir að hún hafi verið beitt andlegu sem og líkamlegu ofbeldi af hálfu fjölskyldu sinnar en mannréttindasamtök segja að hún hafi afneitað íslam sem geti þýtt að hún verði sótt til saka í Sádi-Arabíu. 

Faðir hennar segir ekkert hæft í því að hún hafi verið beitt ofbeldi en hann er kominn til Bangkok. Hann segist dvelja þar þangað til hann viti hvert Qunun fari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert