Varar við stórslysi ef þingið hafnar Brexit

„Það er kominn tími til að hætta öllum leikjum og …
„Það er kominn tími til að hætta öllum leikjum og gera það sem er best fyrir landið okkar,“ skrifar Theresa May í grein sem birtist í breska dagblaðinu Sunday Express í morgun. AFP

Breska ríkisstjórnin gerir nú hvað sem hún getur til að fá þingmenn til að fylkja liði um Brexit-samninginn sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, leggur fyrir þingið á þriðjudag eftir að hafa aflýst atkvæðagreiðslu um hann í desember.

Talið er að hópur þingmanna sé þegar farinn að undirbúa næstu skref ef samningi May verði hafnað en samningurinn hefur mætt mikilli mótstöðu í breska þinginu, bæði frá stjórnarþingmönnum og þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Þá hefur fjöldi ráðherra sagt af sér vegna samningsins um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Bretland gengur að öllu óbreyttu úr Evrópusambandinu 29. mars, með eða án samnings. May varar við stórslysi ef þingmenn hafni samningnum á þriðjudag og segir það „ófyrirgefanlegt trúnaðarbrot við kjósendur“. „Það er kominn tími til að hætta öllum leikjum og gera það sem er best fyrir landið okkar,“ skrifar May í grein sem birtist í breska dagblaðinu Sunday Express í morgun.

Ekkert gefið upp um plan B

Stephen Barclay, ráðherra Brexit-mála, segir að þingmenn séu með ýmsar áætlanir í burðarliðnum sem virði ekki niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit eða auki líkurnar á útgöngu án samnings. Barclay vill ekkert gefa upp um hvort ríkisstjórnin hafi plan B ef samningnum verður hafnað á þriðjudag.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir að flokkur hans, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, muni kjósa gegn samningnum. Hann segir jafnframt að útganga án samnings sé slæmur kostur og að flokkur hans muni gera hvað sem hann getur til að koma í veg fyrir að það verði niðurstaðan.

Corbyn hvetur til þingkosninga og ef þingið hafnar samningnum mun Corbyn leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir að flokkur hans, sem er …
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir að flokkur hans, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, muni kjósa gegn samningnum. AFP

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert