Lokuðust ofan í frystikistu og létust

Frystikistan hafði verði skilin eftir sambandslaus í garðinum. Mynd úr …
Frystikistan hafði verði skilin eftir sambandslaus í garðinum. Mynd úr safni.

Þrjú börn í Flórída eru látin eftir að hafa lokast niðri í frystikistu. Börnin, sem voru eins árs, fjögurra ára og sex ára, voru við leik utan við heimili sitt þegar þau ákváðu að klifra ofan í frystikistuna sem hafði verið skilin eftir sambandslaus úti í garðinum.

Tvær konur sem búa á landareigninni í Live Oak fundu börnin, en gátu ekki lífgað þau við.

BBC hefur eftir lögregluyfirvöldum í Suwannee-sýslu að ekki sé talið að dauða barnanna hafi borið að með grunsamlegum hætti, en málið verður engu að síður sent embætti saksóknara til rannsóknar. Talið er að börnin hafi kafnað eftir að hespa utan á kistunni féll niður og þau lokuðust þar með niðri í kistunni.

„Engin orð geta lýst því hve harmi lostinn ég er,“ sagði lögreglustjórinn Sam St John á fundi með fjölmiðlum. „Í hvert skipti sem málin varða börn og eitthvað þessu líkt gerist og þegar þau deyja af þessum völdum, þá togar það í hjartastrengina.“

Fjölmiðlar á staðnum segja eins árs stúlkuna og sex ára bróður hennar hafa búið með ömmu sinni á landareigninni og bjó fjögurra ára vinkona þeirra þar einnig ásamt móður sinni. Sú hafði verið að fylgjast með leik barnanna, en brá sér inn og var fjarverandi í 10-15 mínútur. Þegar hún kom út aftur voru börnin horfin.

Hún vakti þá ömmuna, sem var sofandi þar sem hún var á leið á næturvakt, og þær leituðu um alla landareignina og hjá nágrönnunum. Þær fundu börnin ekki fyrr en síðar í frystikistunni en þá var ekkert lífsmark með þeim. Þær höfðu þá samband við neyðarlínuna og voru börnin flutt á sjúkrahús þar sem þau voru úrskurðuð látin.

Félagsmálayfirvöld í Flórída eru nú með málið til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert