Kynferðisofbeldið viðgengist lengi

Pólsk abbadís ræddi í dag við kaþólsku KAI-fréttastofuna í Póllandi um kynferðislega misnotkun presta á pólskum nunnum.  Sagði abbadísin, Joanna Olech, vandann hafa verið lengi til staðar.

„Kynferðislegt ofbeldi presta í garð nunna hefur lengi viðgengist í Póllandi,“ sagði Olech, sem var formaður sambands kvenkyns starfsmanna kaþólsku kirkjunnar í landinu á árabilinu 1995-2008.

Sjálf vissi hún um nokkur dæmi. Til að mynda um „unga nunnu sem varð ólétt og neyddist til að yfirgefa regluna. Faðir barns hennar er hins vegar enn prestur og hefur ekki þurft að svara fyrir gjörðir sínar,“ sagði Olech.

Aldrei hefði þá verið greint frá þessum tilfellum opinberlega, þrátt fyrir að þau hefðu verið tilkynnt til yfirmanna prestanna.

Sagði Olech ekkert þá vera vitað um umfang vandans í Póllandi, þar sem slíkar rannsóknir hefðu aldrei verið gerðar þar.

„Nunnur sem hafa sætt kynferðisofbeldi geta hvergi fengið aðstoð,“ sagði Olech  og bætti við að þeim tíma væri hins vegar nú að ljúka að slíkum málum væri sópað undir teppið.

Kaþólskir biskupar víða að úr heiminum taka þessa dagana þátt í ráðstefnu í Vatíkaninu um það hvernig koma megi í veg fyrir kynferðisofbeldi gegn börnum.

Olech sagði prestunum ekki hafa verið refsað, þrátt fyrir að ...
Olech sagði prestunum ekki hafa verið refsað, þrátt fyrir að yfirmönnum þeirra hefði verið tilkynnt um brotin. AFP
mbl.is