Fæðingin náðist á myndband

Litli kálfurinn ásamt móður sinni.
Litli kálfurinn ásamt móður sinni. Ljósmynd/Chester-dýragarðurinn

Komu hans í heiminn hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu enda á hann fáa sína líka. Móðirin Dagmar gekk með hann í heila fimmtán mánuði og þannig vildi til að fyrstu augnablik hans í veröldinni náðust á myndband.

Hér erum við að tala um gíraffakálf, nánar tiltekið rothschild-gíraffakálf, en sú deilitegund gíraffans er í mikilli útrýmingarhættu. Árið 2016 fundust aðeins 1.669 slíkir úti í náttúrunni.

Kálfurinn sem hér er til umfjöllunar fæddist hins vegar í Chester-dýragarðinum á Englandi. Hann er sjötta afkvæmi móður sinnar, hinnar tólf ára gömlu Dagmar. Kálfurinn reyndi skömmu eftir fæðinguna að komast á fætur með móður sína sér til aðstoðar.

Fréttin heldur áfram fyrir neðan færsluna.

„Að sjá fæðingu og fyrstu skref dýra er fágætt og sérstaklega þegar rothschild-gíraffar eiga í hlut, þá er það mjög sérstætt,“ segir Sarah Roffe, umsjónarmaður gíraffanna í Chester-dýragarðinum. „Dagmar er fyrirmyndarmóðir. Hún heldur sig nærri kálfi sínum og gefur honum að drekka sem er auðvitað alveg nauðsynlegt fyrstu dagana.“

Rothschild-gíröffum hefur fækkað hratt úti í hinni villtu náttúru síðustu áratugi. Þeir eru nú sú spendýrategund sem er í hvað mestri útrýmingarhættu. Nafnið er dregið af Walter Rothschild, stofnanda Tring-safnsins. Hann var bankamaður en einnig dýrafræðingur. Gíraffinn er stundum kenndur við það land þar sem hann finnst helst, Úganda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert