Skotárás í hollenskum sporvagni

Lögreglumenn á vettvangi þar sem skotárásin átti sér stað í …
Lögreglumenn á vettvangi þar sem skotárásin átti sér stað í morgun. AFP

Nokkrir særðust þegar hafin var skothríð í sporvagni í borginni Utrecht í Hollandi í morgun. Þetta kemur fram í frétt AFP og vísað í upplýsingar frá hollensku lögreglunni. Breska ríkisútvarpið BBC segir að karlmaður hafi hafið skothríð í sporvagninum.

Fram kemur á fréttavef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN að margir hafi særst og að atvikið hafi átt sér stað klukkan 9:45 að íslenskum tíma á 24. október-torginu sem hafi verið girt af í kjölfarið. Lögregluaðgerðir eru enn í gangi en atburðurinn er liðinn.

Engar fréttir hafa borist um að einhverjir hafi týnt lífi í árásinni. Mikill viðbúnaður er á vettvangi og þar á meðal lögreglumenn sem sérþjálfaðir eru til þess að takast á við hryðjuverk. Samkvæmt BBC er árásarmannsins leitað og segir talsmaður lögreglunnar að hann hafi flúð af vettvangi á bíl. Engar handtökur hafa farið fram.

Haft er eftir sjónarvotti í frétt BBC að maðurinn hafi skotið eins og óður í allar áttir. Ekki hefur komið fram hvort stjórnvöld telji að um hryðjuverk hafi verið að ræða en haft er eftir lögreglunni í frétt AFP að hugsanlega sé talið að svo sé.

AFP

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert