Vestager fer fram fyrir ALDE

Margrethe Vestager fer með samkeppnismál í framkvæmdastjórn ESB.
Margrethe Vestager fer með samkeppnismál í framkvæmdastjórn ESB. AFP

Margrethe Vestager, sem fer með samkeppnismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ætlar að bjóða sig fram í embætti forseta framkvæmdastjórnarinnar. Vestager staðfestir þetta í viðtali við Politiken í dag.

Banda­lag frjáls­lyndra flokka í Evr­ópu, ALDE, mun væntanlega tilkynna á Evrópuþinginu í dag að Vestager verði í framboði fyrir ALDE í kjöri til forseta en bandalagið leggur fram lista sinn í dag um sæti í framkvæmdastjórninni. 

Jean-Claude Juncker, sem í dag gegnir embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB, er ekki í framboði en framjóðandi bandalags hægriflokka, EPP, verður Manfred Weber.

Vestager var ráðherra í dönsku ríkisstjórninni áður en hún tók sæti í framkvæmdastjórninni árið 2014. Hún var formaður miðflokksins Radikale Venstre og fór með efnahags- og innanríkismál í samsteypustjórn vinstri- og miðflokka undir forystu Helle Thorning-Schmidt 2011-2014 en hún sat á þingi frá árinu 2001.

Hörð afstaða hennar í garð bandarískra stórfyrirtækja í skattamálum hefur vakið mikla athygli og hefur forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, gefið henni viðurnefnið „Skattafrúin“.

Umfjöllun Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert