Átök leifturlýðs og lögreglu í Frankfurt

Fjölmennt lögreglulið var sent á vettvang. Myndin er úr safni.
Fjölmennt lögreglulið var sent á vettvang. Myndin er úr safni. AFP

Óeirðir brutust út í miðborg Frankfurt í Þýskalandi í gær þegar til átaka kom á milli ungmenna og lögreglu. Þetta gerðist eftir að um 600 ungmenni ákváðu að byrja að hlaupa eftir verslunargötunni Zeil. Lögreglan segir að hópurinn hafi ekki sýnt öðrum vegfarendum tillitssemi.

Lögreglan vildi rýma svæðið og skipaði skipuleggjanda leifturlýðsins (e. flashmob) að koma þeim skilaboðum á framfæri við hópinn. Allt fór svo í bál og brand þegar 17 ára gamall unglingspiltur kýldi lögreglumann í andlitið. 

Eftir að lögreglan handtók piltinn hófu önnur ungmenni að kasta grjóti í lögregluna. Þrír lögreglumenn fengu grjót í sig en einn þeirra hlaut minni háttar áverka. 

Það tók um tvær klukkustundir að rýma svæðið eftir að átökin brutust út. 

Lögreglan skoðar nú hvað varð til þess að ungmennin söfnuðust saman í þessum tilgangi. Þá eru yfirvöld að skoða hvort skipuleggjendur viðburðarins þurfi að bera kostnað vegna lögregluaðgerðarinnar. 

Þetta gerist tveimur dögum eftir að hópslagsmál brutust út í miðborg Berlínar milli tveggja hópa sem styðja tvær ólíkar samfélagsmiðlastjörnur. Þar voru níu handteknir, en átökin brutust út á Alexanderplatz. Um 400 manns tóku þátt í átökunum. Þurfti lögreglan að senda 100 manna lið til að skakka leikinn. Tveir lögreglumenn meiddust í átökunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert