Hugðist myrða Barack Obama

Larry Mitchell Hopkins (t.v.) er 69 ára gamall og tilheyrir …
Larry Mitchell Hopkins (t.v.) er 69 ára gamall og tilheyrir hersveitinni United Constitutional Patriots. AFP

Maður sem talinn er vera leiðtogi hersveitar í Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum er sagður hafa stært sig af skipulagningu morðs á fyrrverandi Bandaríkjaforsetanum Barack Obama, samkvæmt heimildum sem Alríkislögreglan hefur undir höndum.

Larry Mitchell Hopkins er 69 ára gamall og tilheyrir hersveitinni United Constitutional Patriots. Hann er einnig sagður hafa haft í hyggju morð á Hillary Clinton og milljarðamæringnum George Soros.

Ekki liggur fyrir hvenær Hopkins á að hafa látið uppi áætlanir sínar, en lögmaður hans neitar öllum ásökunum.

Tóku innflytjendur í gíslingu við landamærin

Hopkins var leiddur fyrir dómara í Nýju Mexíkó í gær, en hann er ákærður fyrir að eiga skotvopn, en hann er dæmdur glæpamaður og hefur ekki til þess leyfi.

Hersveitin sem Hopkins tilheyrir komst í fréttirnar í síðustu viku eftir að hafa tekið hóp farandfólks haldi nærri landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó, en sveitin telur sig vera að aðstoða yfirvöld við að takast á við síaukinn fjölda innflytjenda sem reynir að komast til landsins frá Mið- og Suður-Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert