Innikróaðar í skógareldi

Mynd sem tekin var úr björgunarþyrlu norska flughersins í dag …
Mynd sem tekin var úr björgunarþyrlu norska flughersins í dag og sýnir reykjarmökkinn yfir Sokndal og nágrenni. Þrír aðrir skógareldar loga í Vest-Agder en slökkvilið ræður enn sem komið er ekki við Sokndal-brunann. Ljósmynd/330. flugsveit norska flughersins

Slökkvilið í Suður-Rogalandi á vesturströnd Noregs berst nú við víðáttumikinn skógareld sem farinn er að ógna byggð í Sokndal. Lítið gengur að hemja logana og rétt fyrir klukkan 15 í dag að norskum tíma, 13 að íslenskum, þurfti björgunarþyrla frá flugvellinum í Sola við Stavanger að sækja tvær konur sem voru í göngutúr á svæðinu og voru við það að verða innlyksa í brunanum.

Í nágrannafylkinu Vestur-Agder loga þrír skógareldar enda gróður þurr nánast um gervallan Noreg eftir einmuna veðurblíðu um páskana en næstu daga er spáð allt að 20 stiga hita og mældist mestur hiti í Noregi 22,7 gráður í dag í Hidra í Vestur-Agder.

Krefjandi aðstæður þegar fólki er hætt

Glenn Bjarne Dirdal, vaktstjóri slökkviliðsins á svæðinu, segir konurnar tvær hafa sloppið með skrekkinn en aðgerðir á svæðinu í dag hafi verið krefjandi þar sem tilkynnt hefði verið um fólk í hættu. Var í fyrstu talið að fjórir einstaklingar væru hætt komnir en aðeins reyndist um konurnar tvær að ræða.

Stine Rørvik, fréttamaður norska ríkisútvarpsins NRK á svæðinu, sagði í kvöldfréttatíma fyrir skömmu að slökkvilið og viðbragðsaðilar byggju sig undir að berjast við eldinn í Sokndal fram eftir kvöldi. Fylkisvegi 44 hefur verið lokað á kaflanum frá Åna-Sira að Åmot-brúnni í Sokndal og biður lögregla íbúa á svæðinu að fylgjast með tilkynningum í fjölmiðlum. Dagblaðið VG segir að til standi að rýma allt að 60 íbúðarhús og Aftenposten birtir myndir af þykkum reykjarmekki yfir Heggdal.

Í einni langvinnustu hitabylgju sem Norðmenn hafa upplifað, í fyrrasumar, kviknuðu alls 2.079 skógareldar og tók það slökkvilið samanlagt rúmar 71.000 klukkustundir að ráða niðurlögum þeirra.

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert