Ræddi við Svíakonung á sænsku

Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Elva Gunnarsdóttir í sendiráðsbústaðnum í …
Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Elva Gunnarsdóttir í sendiráðsbústaðnum í Stokkhólmi. mbl.is/Alexander

Varnarmál, Brexit og formennska Íslands í Norðurskautsráðinu voru meðal þess sem voru til umræðu á fundi forseta Alþingis með forseta sænska þingsins og ráðherrum úr ríkisstjórn Svíþjóðar í gær. 

Steingrímur J. Sigfússon, forseti alþingis, er í Stokkhólmi ásamt Bryndísi Haraldsdóttur, þingmanni Sjálfstæðisflokksins úr utanríkismálanefnd og Þorsteini Sæmundssyni, þingmanni Miðflokksins.

Steingrímur fundaði með Andreas Norlén, forseta sænska þingsins, í gærmorgun og síðar með Margot Wallström utanríkisráðherra. Steingrímur segir nýlegan fund Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi hafa verið fyrirferðarmikinn í umræðum hans og utanríkisráðherrans. Ísland tók við formennsku í ráðinu á fundinum en andstaða Bandaríkjamanna við að minnst væri á loftslagsbreytingar varð til þess að engin niðurstaða varð af fundinum, og segir Steingrímur að Wallström hafi lýst yfir mikilli óánægju sinni með framgöngu Bandaríkjamanna.

Þá fundaði forseti einnig með Karli Gústafi Svíakonungi og ræddust þeir við á sænsku.

Steingrímur J. Sigfússon ásamt Karli Gústaf Svíakonungi.
Steingrímur J. Sigfússon ásamt Karli Gústaf Svíakonungi. Ljósmynd/Sænska konungahúsið

Seinnipartinn í dag mætti þingföruneytið í móttöku í sendiráðsbústað Íslands í Stokkhólmi ásamt fulltrúum Íslendingasamfélagsins í Stokkhólmi, í boði Estrid Brekkan sendiherra. Steingrímur minntist á mikilvægi þess að hlúa betur að samskiptum íslenskra stjórnvalda við Íslendinga búsetta erlendis, en um 45.000 Íslendingar búa utan landsteina þar af um 9.000 í Svíþjóð. Þá viðraði hann þá hugmynd að íslenska ríkið kæmi upp samskonar félagsmiðstöðvum og Jónshúsi í Kaupmannahöfn, í fleiri borgum þar sem mikið er um Íslendinga. Slík húsnæði gætu verið mikil lyftistöng fyrir starf Íslendingafélaga erlendis. 

Á morgun heldur sendinefndin til Uppsala þar hún fundar með Göran Erander, landshöfðingja Uppsalalénar, auk þess sem hún mun hitta fulltrúa Íslandsfélagsins í Uppsala en félagið, sem fæst við rannsóknir á íslensku og íslenskri menningu, fagnar sjötugsafmæli um þessar mundir. 

mbl.is